Á Íslandi er ekki jafn rík hefð fyrir styrkjum til námsefnisgerðar og á hinum Norðurlöndunum. Í háskólunum er eðlilegt að lesa bækur á erlendum málum en það er vissulega áhyggjuefni þegar framhaldsskólanemendur þurfa að lesa æ fleiri kennslubækur á erlendu tungumáli t.d. ensku. Þetta getur átt við námsgreinar eins og jarðfræði, efnafræði, stærðfræði, o.fl. greinar. 

Fyrir framhaldsskólanemanda á fyrsta ári þá er mikið álag að lesa fræðilegan texta á t.d. ensku. Hvers á nemandinn að gjalda þegar íslenskar kennslubækur eru ekki í boði? Eini beini ríkisstuðningurinn sem er við námsbókaútgáfu á framhaldsskólastigi er í gegnum Þróunarsjóð námsgagna en sá sjóður á að þjóna öllum þremur skólastigunum þ.e.a.s. leik-, grunn- og framhaldsskóla og á liðnu ári úthlutaði sjóðurinn 52 millj.

Stytting náms til stúdentsprófs kallaði á endurskoðun námskráa, áfangalýsinga og kennsluefnis. Rík nauðsyn er meiri en áður á að veita meira fjármagni núna í námsefnisgerð framhaldsskólanna. Í skýrslu starfshóps um bókmenningarstefnu frá 2017 er fjallað sérstaklega um námsefni. Þar eru yfirvöld hvött til að sinna því lögbundna hlutverki sínu að skólar hafi aðgang að góðu námsefni. Starfshópurinn hvetur yfirvöld til að ”styrkja og efla námsefnisgerð og auka það fjármagn sem skólar fái til að kaupa á rafrænu efni.” Slíkt myndi án efa virka sem innspýting í íslenska námsefnisgerð.

Hvers vegna skyldu kennarar framhaldsskólanna oft kjósa að styðjast við erlendar námsbækur þar sem  mætti ætla að til væru kennslubækur á íslensku? Ástæðan gæti verið lítill metnaður af hálfu menntamálayfirvalda að styðja rausnarlega við íslenska námsbókagerð á framhaldsskólastigi. Einnig skiptir miklu máli fyrir nemendur að tileinka sér fræðiorð og hugtök á eigin móðurmáli þar sem það er staðreynd að móðurmálið okkar á undir högg að sækja hjá ungmennum og enska notuð æ meira.

Í mörgum námsgreinum eru þess dæmi að úreltar áratugagamlar námsbækur séu notaðar og er það miður. Í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er talað um að efla gerð og útgáfu námsgagna fyrir nemendur á skólaskyldualdri. Það er ljóst að hér þyrfti að tilgreina framhaldsskólann og fara í sérstakt átak til að fjölga útgáfu nýrra kennslubóka á því skólastigi. Í fjölmörgum kennslugreinum, t.d. í verk- og starfsnámi, vantar kennslubækur og það er vissulega áhyggjuefni að nemendur upplifi ákveðnar greinar sem annars flokks þegar kennslubækurnar vantar.

Menntamálayfirvöld ættu að leggja metnað sinn í að styðja betur við íslenska námsgagnagerð á öllum skólastigum og taka jafnvel upp starfslaun fyrir þá kennara sem vilja fara í leyfi frá kennslu og semja kennslubækur. Kennarar eiga kost á launuðu námsleyfi en ekki kost á launuðu leyfi til að semja kennslubækur. Ég hvet menntamálayfirvöld að endurskoða þá stefnu sem ríkir í námsgagnamálum og hækka styrki rausnarlega þannig að íslenskar kennslubækur í flestum kennslugreinum verði aðgengilegar íslenskum framhaldsskólanemendum.

Steinn Jóhannsson
konrektor Menntaskólans við Hamrahlíð