Margt er glundrið í stéttastríði Eflingar og Samtaka atvinnulífsins og alger firra að freista þess að leiða baráttuna til lykta með öllum ráðum öðrum en einfaldlega að lyfta svo um munar launum sem eru svo lág að það stappar nærri sturlun.

Þegar er búið að hækka lagaklækjaþráhyggjuna sem hefur þjakað þjóðina allar götur síðan Njála varð skyldulesning upp í 11 og djöfulgangurinn í ímynda­stríðinu er slíkur að ætla mætti að almannatenglarnir og álitshafarnir trúi því að kjarabarátta lúti sömu lögmálum og amerískt lögfræðidrama þar sem sá stendur uppi sem sigurvegari sem er flinkastur við að slá glimmeri og hugvíkkandi ryki í augu kviðdómenda.

Asnalegasta útspilið á vígstöðvum ímyndasmiðanna er síðan klikkunin sem felst í því að reyna að kasta rýrð á formann Eflingar fyrir að rífa kjaft. Hörð verkalýðsbarátta? Þessi verkalýðsbarátta á að vera hörð. Og Sólveig Anna talar eins og verkalýðsleiðtogar eiga að tala.

Hvað er að því að kalla yfirstétt yfirstétt og arðrán arðrán? Ef manni finnst eitthvað ógeðslegt þá er það bara ógeðslegt. Það er einhvers konar met í lágkúru að gera aðalmálið í kjaraviðræðum að lágkúra sé kölluð lágkúra.

Sturlun er klikkað mikið uppáhalds orðið mitt í íslenskri tungu þannig að ég er alveg ógeðslega ánægður með hversu formanni Eflingar verður tíðrætt um sturlun. Ástandið er sturlað þannig að það væri þvengpípandi galið að lýsa því öðruvísi. Það eru eiginlega bara fáránlegir einstaklingar sem láta sér detta til hugar að gera munnsöfnuð að lykilatriði í baráttunni um brauðið. Og bensínið.