Óttar Guðmundsson geðlæknir er þjóðþekktur penni og hefur Fréttablaðið notið krafta hans í einlægum og skemmtilegum pistlum. Og oft segir maður að lestri loknum: „Þetta verður ekki betur gert.“ Sturlungaöldin er Óttari hugleikin, þá geisaði borgarastyrjöld á Íslandi en menningin reis hærra en á nokkurri öld annarri. Hér voru gefnar út þrjú hundruð bækur, ein í Danmörku en engin í Noregi. Öldin rís svo hátt að bækur og bókmenntaafrek Snorra Sturlusonar gnæfa enn yfir önnur ritverk Íslendinga. Snorri var einnig umdeildur stjórnmálamaður og ættingjar hans bárust á banaspjótum.

Sturlunga geðlæknisins er að mínu mati besta bók Óttars af mörgum líflegum. Óttar skoðar róstusamt líf Sturlunga og hetjurnar leggjast á bekkinn hjá geðlækninum. Bókin er skrifuð í stuttum köflum og vel skilgreindum, svo að lesandinn er mitt á meðal stærstu atburða sögunnar. Margt hefur auðvitað breyst en mannsandinn er samur við sig. Menn glíma við sjálfa sig nú eins og þá. Óttar fléttar inn í söguna mögnuðum skýringum frá grískri goðafræði yfir til Biblíunnar og að hversdagslífi okkar mannanna. Öðru hvoru kemur hugleiðing geðlæknisins sem varpar nýju ljósi á manngerðina eða aðstæðurnar. Óttar minnir okkur á að líklega býr fól í hverjum manni. Sturlungaöldin er breysk, full af hatri, hroka og illsku. Kirkjan og valdamenn takast á, ættingjar berast á banaspjótum og í blóði aldarinnar hrærir Hákon gamli Noregskonungur.

Erlent vald hefur í þúsund ár verið gjörandi í mögnuðustu rimmum Íslendinga. Kristnitakan var lögtekin undir hótunum Noregs­konungs. Aftaka Jóns Arasonar biskups og tveggja sona hans í Skálholti 1550 var glæpur og inngrip Danakonungs í málefni landsins. Evrópusambandið er nú í hlutverki konunganna og misþyrmir lýðveldinu unga og stjórnmálaflokkarnir eru klofnir í herðar niður og pólitíkusar dagsins gera hosur sínar grænar fyrir „kónginum í Brussel.

Icesave var stríð okkar samtíma við erlent vald, og þar varð forseti Íslands Ólafur Ragnar Grímsson öflugasti stjórnmálamaðurinn. Það hefur ekkert breyst, nema manndrápið er sem betur fer ekki á dagskrá. Ísland bjó ekki við fjórflokkinn þá en ættarveldin voru nokkur þar sem frændur voru frændum verstir.

Það hefur aldrei farið leynt að Óttari er líkt farið og Sturlu Þórðarsyni sem skráði öldina á spjöld sögunnar. Sturla reynir jafnan að setja Gissur Þorvaldsson í hallærislega stöðu. Þeim báðum er lítið um Gissur frænda minn, en þeir hafa aðdáun á Sturlu Sighvatssyni. Það kemur fram í bókinni að Hákon konungur hvíslaði mörgu að Sturlu þegar hann kom frá páfanum í Róm sem iðrandi syndari. En auðmýktin er ekki Sturlu. Í framhaldinu hefst heljarslóðaorusta Sturlu og blóðugasta tímabilið. Sturla níðir og hrekur skáldið frænda sinn Snorra frá Reykholti og gerir aðför að Gissuri í Apavatnsför, þar sem engum blandast hugur um að ætlunin var að drepa Gissur. Framhaldið er Örlygsstaðabardagi, dráp Snorra og síðar Flugumýrarbrenna.

Mér finnst undir lok bókarinnar að Óttar skilji loksins tilfinningar Gissurar sem er hertekinn og niðurlægður við Apavatn, mitt í ríki sínu. Örlygsstaðabardagi var óhjákvæmilegur og síðar er Flugumýrarbrenna þar sem eiginkona Gissurar og þrír glæsilegir synir brenna inni. Gissur geldur í sögunni fyrir aðförina að Snorra Sturlusyni. Snorri er afburðaskáld og yfirburðamaður en sem stjórnmálamaður var hann klaufskur, nískur og grunnhygginn. Kóngurinn úthellir blóði hans og í fjandaflokki hans eru meðal annars þrír fyrrum tengdasynir og tveir stjúpsynir. Bókin varpar nýju ljósi á Sturlungaöldina og í raun sér maður Íslandssöguna breytta í gegnum gleraugu Óttars Guðmundssonar. Bókin er spennusaga og glæpasaga sem gerðist og höfundur Sturlungu var í liði frænda sinna og skráði atburðina. Óttar er sanngjarnari frásagnarmaður þessa tímabils en Sturla Þórðarson. Þessa Íslendingasögu verða allir að lesa.