Kosningarnar í dag eru mikilvægar vegna þess að í sveitarstjórnarkosningum kjósum við um nærumhverfi okkar og ýmsa grunnþjónustu.

Í kosningabaráttunni hefur það helst borið til tíðinda að Sjálfstæðisflokkurinn, sem í áratugi bar höfuð og herðar yfir aðra flokka í Reykjavík, hefur ekki náð vopnum sínum. Hann virðist hafa glatað trausti kjósenda í höfuðborginni.

Listi flokksins í Reykjavík þykir óspennandi, auk þess sem frambjóðendur sjálfstæðismanna eru ósamstiga í stærstu málum.

Frambjóðendur flokksins í höfuðborginni hafa eitthvað reynt að kenna óvinsældum formanns flokksins og klúðrinu við útboð Íslandsbanka um mikið fylgistap.

Sú skýring stenst ekki skoðun. Í Hafnarfirði, þar sem gamall kratahöfðingi sækir hart að flokknum, virðist Sjálfstæðisflokkurinn ætla að halda sínu frá því í kosningunum 2018.

Skýringa á fylgistapi sjálfstæðismanna í Reykjavík er því að leita hjá frambjóðendum sjálfum, sundurlyndi þeirra og fráhrindandi niðurrifsmálflutningi sem flokkurinn hefur stundað á þessu kjörtímabili.

Hvort sem Sjálfstæðisflokkurinn verður í 20-25 prósentum eða nær 30 prósentum verður hann áfram í minnihluta í borgarstjórn Reykjavíkur, einangraður og vinafár.

Einungis Miðflokkurinn virðist ginnkeyptur fyrir samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og hann virðist ekki ætla að fá mann kjörinn.

Jafnvel Framsókn, sem nú hirðir óánægjufylgi frá Sjálfstæðisflokknum, lýsir ekki vilja til samstarfs. Er þó oddviti Framsóknar rótgróinn sjálfstæðismaður úr Kópavogi – eins hjákátlegt og það nú er. En jafnvel hann hefur varað við klofningi sjálfstæðismanna í Reykjavík og efast um að þeir séu stjórntækir.

Fátt bendir til að neitt breytist hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík.