Eins og fjölmargir Íslendingar lenti ég í nokkru veseni með fjármál mín eftir Hrun. Stærsta vandamálið var kannski að ég hafði í raun ekkert spáð í fjármálin. Þegar efnahagslífið fór svo á hliðina urðu þessir veikleikar og skipulagsleysi að miklu stærra vandamáli.

Á mig féllu skuldir og staðan var hunderfið. Þá settist ég niður skráði niður allar skuldir mínar og gerði áætlun. Fyrst greiddi ég niður eitt lán, því næst yfirdrátt og svo koll af kolli.

Í dag er húsnæðislánið fyrir utan námslánið eitt eftir. Ég lýsti yfir stríði við það lán fyrir nokkrum árum. Sú stríðsyfirlýsing felur í sér að ég ætla að ganga frá þessu láni eins hratt og örugglega og mér er frekast kostur. Þannig hef ég fært orrustuna frá viðskiptabanka mínum í lífeyrissjóð með það eitt að elta lægri, fasta, óverðtryggða vexti. Ég hef aldrei haft hærra tímakaup á ævinni en þegar ég stóð í að skuldbreyta húsnæðisláni okkar. Í dag er lánið aftur komið í viðskiptabanka minn töluvert veikara en fyrir nokkrum árum. Ég lít svo á að við fjölskyldan séum að sama skapi sterkari.

Staðreyndin er sú að húsnæðislán er stærsta skuldbinding okkar flestra. Þess vegna eigum við að gera allt sem í okkar valdi stendur til að greiða þá skuldbindingu niður eins hratt og okkur er kostur. Það hefur verið sagt að það sé hægt að reka þýska hagkerfið í nokkur ár á sparnaði Þjóðverja. Þangað ættum við líka að stefna. Það yrði mikill þjóðarhagur sem myndi skila sér í sterkara hagkerfi og betri andlegri líðan okkar allra.

Leggðu því frá þér kaffibollann, lemdu hnefa í borð og lýstu yfir stríði við húsnæðislánið. Þú munt þakka þér fyrir það síðar.