Það er varla ofsögum sagt að tilvera margra er á öðrum endanum um þessar mundir, enda varla nokkur maður sem kemst undan áhrifum sóttvarnaaðgerða sem til hefur verið gripið til varnar árans veirunni. Skólahald úr lagi, talið inn og út úr verslunum og skorður settar við fjölda á samkomum. Strætisvagnar aka um nær tómir og bíll og bíll á stangli á götunum. Sögusagnir á sveimi um skelfingu og hörmungar, eins og frjór jarðvegur virðist því miður fyrir.

Það sér það hver maður að áhrifin eru mikil, enda eru landsmenn yfirleitt vanir að fylgja því sem fyrir þá er lagt. Það fer ekki hjá því að hin efnahagslega hlið þessa alls verði dökk þegar tölum verður raðað á blað. Rekstur fjölda fyrirtækja mun verða fyrir þungu höggi og viðbúið að sum lifi ekki af.

Á meðan þessir atburðir gerast, er beðið ákaft eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar til mótvægis þessu öllu. Þau hafa látið á sér standa, en koma vonandi fram í dag. Ríkisstjórnir annarra landa í nágrenninu hafa látið myndarlega til sín taka, þó mörg þeirra búi við lakari stöðu ríkisfjármála en við.

Á margan hátt er Ísland fyrirmyndarríki, þó benda megi á ýmislegt sem við gætum fært til betri vegar. Í ljósi þessarar stöðu hefur Ísland möguleika til að vera í algerum fararbroddi í aðgerðum til að styðja atvinnulíf og tryggja rekstur lífvænlegra fyrirtækja.

Viðbrögð Seðlabanka hafa verið eftirtektarverð. Á einni viku hefur hann tvívegis lækkað vexti og stigið myndarlegt skref til að minnka eiginfjárkröfur á banka, til að auðvelda þeim það erfiða verkefni sem þeirra bíður, að greiða úr vandræðum viðskiptavina sinna. Miklu skiptir að innan bankanna verði snör handtök við þessi verkefni og að jafnræðis og sanngirni verði gætt og eitt gangi yfir alla í sambærilegri stöðu.

„Þetta er auðvitað stríð og nú er innrás hafin“, sagði landlæknir nýlega. Þetta er ágæt samlíking. Landið og reyndar heimurinn allur er undir innrás veirunnar.

Sem betur fer höfum við flest sem byggjum þetta land enga reynslu af stríðsrekstri. En við höfum lesið um hörmungar stríðshrjáðra landa þar sem mannslíf er lítils metið. Þetta er ekki þannig stríð. Enda miða öll sóttvarnaviðbrögð við að vernda mannslíf.

Fleiri hafa líkt kórónabaráttunni við stríð. Í fréttaþætti í Ríkissjónvarpinu nýlega lýsti ítalskur læknir því að á tímum heimsstyrjaldanna tveggja hefðu forfeður Ítala verið kvaddir í herinn til að berjast fyrir land og þjóð. Nú snerist baráttan um að halda sig heima og virða útgöngubann og aðrar takmarkanir á samskiptum fólks, til að varna útbreiðslu veirunnar. Það væri í samanburðinum ekki mikil fórn að færa.

Fæstum okkar hér dettur annað í hug en að gegna því sem fyrir okkur er lagt. Það sést best á áhrifum samkomubannsins og nálægðarreglunnar. Þess vegna er enn sem komið er ekki þörf á að takmarka samskipti fólks meira en orðið er.

Þessu stríði mun ljúka bráðlega. Ólíkt þeim flestum vitum við hvernig fer – með fullnaðarsigri manns yfir veiru. Og þá verður indæll friður.