Gríðarleg umbylting á sér stað í tækni og áhorfi á myndmiðla. Línulegt áhorf tilheyrir gærdeginum og horft er á efni í ólínulegri dagskrá, á myndstreymi eða annarri miðlun. Notendur horfa á þeim stað og tíma sem þeir sjálfir kjósa.

Þótt þessar breytingar standi þeim yngri nær, en breytt fjölmiðlanotkun er hjá öllum aldurshópum. Æ meir sækir fólk fréttir og upplýsingar til mynddeiliþjónustu á borð við YouTube, eða samfélagsmiðla Facebook, eða Instagram. Efni er miðlað beint í snjalltæki í stað myndlyklakerfa sjónvarpsstöðva, í beinu viðskiptasambandi við alþjóðlega notendur.

Bandarískar streymisveitur Netflix og Amazon eru aðgengilegar hér og von er á stærsta fjölmiðlafyrirtæki heims Disney+ á árinu. Fleiri eru væntanlegir, flestir frá Bandaríkjunum sem gnæfa yfir hinum á alþjóðlega streymismarkaði. Framboðið sem er mikið mun enn margfaldast.

Í vikunni fjallaði Fréttablaðið um þessar breytingar á fjölmiðlamarkaði. Sagt var frá fyrirhugaðri löggjöf hér sem leggur kvaðir á streymisveitur, bæði íslenskar sem og erlendar, þegar reglur Evrópusambandsins um hljóð- og myndmiðla verður að lögum. Það mun gilda um Netflix, YouTube og aðra sem miðla myndefni.

Með því að skilgreina slíka miðla sem fjölmiðla er leitast við að koma á meira jafnræði óháða miðlun efnis. Reynt er sporna við dreifingu á hatursfullu ofbeldi á öldum ljósvakans. Sett verður inn heimild til að stöðva miðlun eða grípa til viðeigandi aðgerða, sé efnið talið brjóta gróflega gegn lögum.

En mikilvægasta breytingin er krafa um að 30 prósent af framboði myndefnis eftir pöntun skuli vera evrópskt, sýnilegt og fjölbreytt. Ekki verður dregin fjöður yfir að með þessu er verið að bregðast við mikilli markaðshlutdeild bandarískra streymisveitna á Evrópskum markaði.

Einhver kann að spyrja um forsjárhyggju. Hvað kemur mönnum við á hvað sé horft? Evrópsk sjónarmið eru að æskilegt sé að tryggja Evrópubúum aðgang að fjölbreyttu efni sem spegli menningu og sögu þeirra í sífellt opnara alþjóðlegra samkeppnisumhverfi.

Hröð þróun fjölmiðlamarkaðarins sýnir að þörf er á samstöðu Evrópuþjóða til að verja menningararfinn.

Sama gildir hér. Það eru okkar hagsmunir að halda menningu, tungu og sögu okkar á lofti. Það er í senn undirstaða mannlífs hér og hreyfiafl til góðra hluta.

Örríkið Ísland getur ekki eitt og sér spornað við þessari alþjóðaþróun. Okkar hagsmunum er best borgið í samstarfi Evrópuþjóða. Norrænu ríkin telja sig ein og sér of smá til að etja afli við stærri ríki eða alþjóðleg risafyrirtæki. Jafnvel Angela Merkel Þýskalandskanslari lýsti nýlega smæð Þýskalands í hinni alþjóðlegu samkeppni stórvelda og stórfyrirtækja.

Saman mynda Evrópuríkin afar öflugan markað 450 milljóna neytenda. Í því liggur mikið afl og sterk samningsstaða gagnvart alþjóðlegum risum tækni og fjölmiðlunar. Einungis með virku samstarfi þar mynda þjóðirnar það afl sem þarf til að styðja menningarhagsmuni sína. Hröð þróun fjölmiðlamarkaðarins sýnir að þörf er á samstöðu Evrópuþjóða til að verja menningararfinn.