Árið 2003 flutti ég með tíu daga gamlan son til Bandaríkjanna. Ekki leið á löngu þar til afsláttarmiðar fyrir bleiur og aðrar ungbarnavörur fóru að flæða inn um bréfalúguna. Í einfeldni minni hugsaði ég hve hentugt það væri að fá svona góð tilboð. Síðan las ég bók sem útskýrði hvernig kortafyrirtækin kepptust um að selja upplýsingar um viðskiptavini. Bleiufyrirtækið vissi hvað ég var að kaupa og hvar ég átti heima. Enda fengu barnlausu vinir mínir í næsta húsi enga afsláttarmiða fyrir bleium.

Að afsala einkarétti á persónuupplýsingum

Núna má varla nefna vöru á nafn án þess að auglýsing af henni birtist á tölvu eða síma skömmu síðar. Hvernig þetta allt virkar er ofar mínum skilningi en sagt er að þegar maður skráir sig hjá samfélagsmiðli þá sé klausa í samþykkistextanum (sem er áreiðanlega á við samanlagðan orðafjölda í öllum bindum Íslendingasagnanna) þar sem við afsölum okkur einkarétti á persónuupplýsingum sem birtast á miðlinum. Því sé þúsundum gagna safnað saman um okkur, sem eru nýtt til þess að spá fyrir um hegðun okkar.

Ástæðan fyrir því að ég skrifa þetta er að nýverið horfði ég á heimildarmyndina The Great Hack. Myndin fjallar um breska ráðgjafarfyrirtækið Cambridge Analytica sem sérhæfði sig í kosningaherferðum. Í einu atriðinu heyrum við framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Alexander Nix, segja: „Það hljómar sem skelfilegur hlutur að segja, en hlutir þurfa ekki endilega að vera sannir svo fólk trúi þeim.“

Gerðu svo!

Í sölumyndbandi Cambridge Analytica byrjar Alexander Nix á að kynna fyrirtækið sem hinn heilaga kaleik samskipta, því það geti greint lífsviðhorf fólks og með hnitmiðuðum áróðri stýrt hegðun þess. Síðan segir hann frá því hvernig fyrirtækið hafði áhrif á niðurstöður kosninga árið 2010 í Trínidad og Tóbagó, sem er karabískt eyríki. Tveir meginflokkar tókust á í baráttunni: annar stóð fyrir afrísk-karabíska íbúa og hinn fyrir indverska. Cambridge Analytica vann fyrir Indverjana. Herferðin gekk út á að fá yngstu kjósendurna til að sýna stjórnmálum andstöðu og mæta ekki á kjörstað. Grasrótin var virkjuð til að hreyfa við ungum kjósendum sem mótmæltu á samfélagsmiðlum með dansi, söng og krosslögðum handleggjum með kreppta hnefa. Með því að ganga til liðs við hreyfinguna varð unga fólkið töff og hluti af genginu sem hélt á lofti slagorðinu „Do So“. Líkt og Cambridge Analytica spáði, þá mættu afrísk-karabísku ungmennin ekki á kjörstað. Aftur á móti mættu þau indversku af því foreldrar þeirra sögðu þeim að kjósa – það er í þeirra menningu að hlýða foreldrum sínum. Indverjarnir unnu með yfirburðum og Cambridge Analytica skálaði fyrir sigri.

Donald Trump

Árið 2016 gekk Cambridge Analytica til liðs við kosningaherferð Donald Trump. Við fáum nasasjón af því hvernig fyrirtækið nýtti sér Facebook-gögn yfir tugi milljóna notenda til að ýta við kjósendum til að fylgja Trump. Brad Parscale, markaðsstjóri samfélagsmiðla fyrir Trump, sagði á ráðstefnu að beiting Facebook-herferða þeirra hefði haft úrslitaáhrif í forsetakosningunum árið 2016. Eitt dæmi eru falsfréttir af ólöglegum innflytjendum sem hertóku Facebook-veggi kjósenda sem eru uggandi gagnvart innflytjendum. Í kjölfarið birtust fréttir þar sem Trump hét því að vísa innflytjendunum úr landi.

Cambridge Analytica varð gjaldþrota áður en dómur var kveðinn upp í málum þess, en fyrrverandi starfsmenn hafa gengið til liðs við herferðina Trump 2020. Þeir halda líklega áfram að hakka sig inn í huga okkar með því að setja á svið leikrit þar sem við erum strengjabrúður – svo lengi sem við erum grunlaus, eins og móðirin með vönd af afsláttarmiðum fyrir bleium.