Nýjar niðurstöður úr þróunarverkefni á vegum VIRK benda til þess að miklu færri séu í kulnun en telja sig vera það samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, WHO. Af þeim sem sóttu um þjónustu hjá VIRK í fyrra töldu 58 prósent sig glíma við kulnun. Við nánari skoðun starfsmanna kom þó í ljós að aðeins 6,1 prósent uppfyllti skilyrði stofnunarinnar. Það er töluverður munur og ég viðurkenni að ég varð nokkuð hissa þegar ég sá þetta.

Rannsakendur hjá VIRK sögðu í viðtali við Vísi ósamræmið vera eitthvað sem þeir rannsaki nú og að sum einkenni kulnunar eigi einnig við um geðræna kvilla eins og til dæmis þunglyndi.

Fyrir þau sem ekki vita þá er skilgreiningin á kulnun þríþætt en manneskja í kulnun upplifir orkuleysi eða örmögnun, er andlega fjarverandi eða með neikvæð viðhorf tengd vinnustað og svo í þriðja lagi skilar hún minna í vinnu. Í niðurstöðum VIRK er skýrt tekið fram að kulnun vísi til fyrirbæris í tengslum við vinnuumhverfið og að það eigi ekki að nota það til að lýsa reynslu á öðrum sviðum lífsins.

En þetta vekur samt upp margar spurningar. Af hverju er þetta stóra bil hjá fólki og af hverju telja svo margir sig glíma við kulnun þegar það er eitthvað annað? Er orðið búið að fá nýja merkingu eða er fólk að nota það um ástand sem það á ekki við? Hvað getur það svo verið sem hrjáir fólk, ef það er ekki kulnun? Getur það verið að streituvaldarnir séu annars staðar en hafi áhrif á vinnuumhverfið?

Þó svo að kulnun sé aðeins, samkvæmt skilgreiningu WHO, tengd vinnuumhverfi, þá tengjum við eflaust mörg kulnun við streitu sem við upplifum annars staðar en í vinnunni. Og þannig er mögulega hægt að tengja þetta annarri umræðu, um þriðju vaktina. Það er kannski ekki jafn þekkt hugtak og kulnun en fyrir mörg okkar (eða margar okkar) er sú vakt einn af helstu streituvöldum lífs okkar.

Aftur, fyrir þau sem ekki vita, þá er fyrsta vaktin í vinnunni, önnur vaktin er svo hefðbundin heimilisstörf en þriðja vaktin er svo restin. Að skipuleggja matarinnkaupin, áminningar um afmæli, skipulagning sumarleyfa og samskipti við aðra foreldra og vini barnanna okkar.

Ég tala auðvitað bara fyrir sjálfa mig en streita sem ég upplifi í vinnu hefur bein áhrif á líðan mína heima, og öfugt. Streitan mín er ein heild. Það er kannski þar sem ósamræmið er að finna og það verður áhugavert að sjá niðurstöðurnar.