Á Norðurlöndum hafa miklar breytingar orðið í skilnaðarlöggjöf og í þjónustu við foreldra og börn í þeim sporum. Sameiginlegt markmið þeirra er að vernda börnin í skilnaðarferli foreldra með því að gæta sérstaklega að sjálfstæðum rétti, tjáningu og velferð barnanna. Í Danmörku heyrir skipan þessara mála nú undir barna- og félagsmálaráðuneyti, Familiesretshuset, og svipuð skipan er í Svíþjóð og Noregi. Familje­rätten í Svíðþjóð er staðsettur innan félagsþjónustunnar, m.a. með samvinnusamtölum (samarbetssamtal) með fræðslu og stuðningi fyrir foreldra, en þyngri mál eru leyst við Tingsrätten. Í Noregi er skilnaðarforeldrum sem eiga börn undir 16 ára skylt að gera með sér samning um foreldrasamvinnu, foreldresamarbeidsavtale.

Í undanfara breytinganna, bæði í Svíþjóð, Danmörku og Noregi hefur verið litið til rannsókna og tölfræðilegra gagna, innlendum sem alþjóðlegum, og er skipan þeirra um margt áþekk. Þótt Norðurlöndin hafi fylgst að í þróun skilnaðarmála þá hefur hlutur Íslands lengst af legið nokkuð eftir. Á Íslandi hafa þó verið unnar gildar rannsóknir, m.a. sem lágu til grundvallar (síðbúinni) löggjöf um sameiginlega forsjá (1992; 2006), og aðrar m.a. um reynslu og viðhorf skilnaðarforeldra um samskipti og búsetu eftir skilnað (2013).

Nýlega, eða í apríl 2019 tóku ný skilnaðarlög gildi í Danmörku. Breytingar sem lögin fela í sér hafa áhrif á þau um 15.000 pör sem þar sækja um skilnað á ári hverju, og þá einkum fyrir foreldra barna undir 18 ára aldri. Hér á eftir er stiklað á stóru um mikilvægustu breytingarnar sem snúa að umgengni, forsjá og jafnri búsetu. Breytingarnar voru samþykktar með miklum meirihluta atkvæða á alþingi Danmerkur.

Fjölskylduréttarhús

Fram að þessu hafa danskir foreldrar sem eru ósammála um forsjá, lögheimili og umgengni barna sinna, sótt um úrlausn sinna mála hjá „Statsforvaltningen“ í Danmörku, þ.e. stjórnsýslueining sem fór með skilnaðarmál, sambærileg við embætti sýslumanna á Íslandi. Með framkvæmd nýrra skilnaðarlaga var Statsforvaltningen lögð af og í stað þess opnað Fjölskylduréttarhús sem heyrir undir barna- og félagsmálaráðuneyti Danmerkur. Í Fjölskylduréttarhúsinu fer fram skimun á öllum pörum sem óska eftir skilnaði og eiga börn undir 18 ára aldri. Markmiðið er að bæta gæði meðferðar mála, auka málshraða, vernda börnin og draga úr hugsanlegum afleiðingum deilna foreldra, á börnin. Séu foreldrar ekki sammála um umgengni, lögheimili og forsjá barna sinna fá þeir aðstoð í Fjölskylduréttarhúsinu við að ná samkomulagi um þau atriði.

Áherslan er á börnin

Oft eru það börnin sem tapa mest í flóknum skilnaðarmálum og deilum á milli foreldra. Þess vegna er skv. nýju lögunum sett á laggirnar sérstök barnaeining sem er ætlað að tryggja að sjónarmið barnanna heyrist og sérstakt tillit tekið til þeirra við vinnslu skilnaðarmála. Málastjóri, sem heldur utan um hvert einstakt mál, skal ræða reglulega við barnið. Jafnframt fær hvert barn skipaðan fastan tengilið, talsmann, sem það getur fengið stuðning og ráðgjöf hjá.

Grænn, gulur eða rauður?

Málastjórar í Fjölskylduréttarhúsinu flokka málin, og meta alvarleika þeirra og þjónustuþörf eftir því hvort málin greinast sem græn, gul eða rauð. Gert er ráð fyrir að langflest málin verði metin sem græn mál, þ.e. að foreldrar séu sammála um hvernig haga skuli málefnum barna sinna við skilnað. Sú ályktun byggist á niðurstöðum alþjóðlegra rannsókna um að meiri hluti foreldra, um 80%, geti leyst sín mál sjálfur með upplýsingum, almennum leiðbeiningum og/eða ráðgjöf. Foreldrar í þessum hópi sem eru sammála um umgengni, forsjá og lögheimili, fá þá leyfi til að ganga frá skilnaðarmálinu. Í málum sem eru metin gul, hafa foreldrar þörf fyrir meiri ráðgjöf, stuðning og jafnvel sáttameðferð sem liðkar fyrir sameiginlegri niðurstöðu. Þau mál sem eru metin rauð, eru þau mál þar sem foreldrar eiga í verulegum ágreiningi um börnin sín. Unnið er með þau mál í Fjölskylduréttarhúsinu með fræðslu, samtölum, leiðsögn og sáttameðferð. Hægt verður að áfrýja niðurstöðu Fjölskylduréttarins til dómstóla.

Umhugsun og endurskoðun í stað skyndiskilnaðar

Fram að þessu hefur par, sem er sammála um að skilja, getað sótt um slíkt á mjög skjótan og auðveldan máta, rafrænt á nokkrum mínútum. Ein af nýmælunum er að par sem á barn eða börn undir 18 ára aldri getur ekki lengur gert slíkt. Samkvæmt nýju löggjöfinni er nú krafist þriggja mánaða endurskoðunartíma. Þessi tími er jafnframt hugsaður til þess að fá skilnaðar- og fjölskylduráðgjöf í Fjölskylduréttarhúsinu. Í þessu felst mikilvæg réttarbót og vernd fyrir börn.

Allir foreldrar fara í námskeið og taka próf

Það er jafnframt skylda fyrir foreldra sem vilja skilja og eiga börn undir 18 ára að taka rafrænt námskeið sem heitir „Samvinna eftir skilnað“. Námskeiðið er kennsla í þekkingu og verkfærum, sem hjálpar foreldrum til að takast á við breytingar og áskoranir í tengslum við skilnaðinn. Námskeiðið skal fara fram á þessum þriggja mánaða endurskoðunartíma og í kjölfarið skulu allir foreldrar taka rafrænt próf. Prófið á að tryggja að foreldrar fái leiðbeiningar um það hvernig best er að standa að skilnaðinum með hagsmuni barnanna að leiðarljósi, auk fræðslu um hugsanleg viðbrögð barna við skilnaði foreldra sinna. Þetta er forsenda þess að foreldrar fái leyfi til skilnaðar.

Jöfn staða foreldra

Mikilvægar breytingar, sem snúa að því að jafna stöðu foreldra, tóku jafnframt gildi með nýju lögunum. Nú getur barn haft jafna búsetu hjá báðum foreldrum sínum, en verið er að útfæra framkvæmdina á þessum breytingum með reglugerð. Auk þessara breytinga liggur fyrir frumvarp um að foreldrar með sameiginlega forsjá geti framvegis deilt greiðslum á borð við barnabætur og öðrum greiðslum/bótum tengdum börnum jafnt á milli beggja heimila.

Lokaorð

Eins og nefnt var hér í upphafi er þekkingargrunnur í skilnaðarmálum nægilegur hér á landi til þess að huga megi fara að allsherjar endurskoðun á skipan skilnaðarmála, þjónustu og vernd barna á Íslandi sem reyna skilnað foreldra sinna. Í rannsókninni Eftir skilnað (2013) er að finna hugmynd að líkani sem er byggt á íslenskum rannsóknarniðurstöðum. Því líkani að skipan og þjónustu svipar mjög til dönsku nýbreytninnar sem hér hefur verið greint frá.