Handbolti er yndisleg íþrótt en á sama tíma gjörsamlega óþolandi. Sem áhorfandi upplifir maður hættulegar geðsveiflur en maður getur ekki sleppt því að fylgjast með. Íþróttin hefur eitthvert undarlegt aðdráttarafl – dulúð. Hún er ekki bara hjúpuð leyndardómi, hún er einnig fullkomlega óskiljanleg. Þar liggur aðdráttaraflið.

Svo dæmi séu tekin þá mega leikmenn ekki stíga á línuna en samt hefur það aldrei gerst í sögu handboltans að horna- eða línumenn séu ekki lentir í teignum þegar þeir loks kasta frá sér knettinum. Hugtakið leiktöf virðist óskilgreint en tekur þó breytingum eftir því sem líður á leikinn. Reyndar virðast leikreglurnar í heild breytast þegar stutt er eftir af leiktímanum, sérstaklega þegar staðan er jöfn. Gula spjaldið er merkingarlaust. Það er enginn sjáanlegur munur á ruðningi og aukakasti. Það er ekki fótur fyrir ofan hné. Þegar leikmaður er „tekinn úr umferð“ þá gerir hann heiðursmannasamkomulag við hitt liðið um að draga sig í hlé, lengst úti á velli. Leikkerfin eru nefnd eftir fyrrverandi kommúnistaríkjum og svo eru það skrefin, maður. Hversu mörg mega þau eiginlega vera? Verst er að krossinn, sem var það svalasta við íþróttina, hefur verið afnuminn. Í staðinn veifa dómarar bláu spjaldi, sem lítur út eins og debetkort. Það voru vond skipti.

Markmennirnir hljóta að vera bilaðir og mikil er ábyrgð þjálfaranna sem ákváðu að setja Guðmund Hrafnkels, Bergsvein, Sigmar Þröst og Björgvin Pál milli stanganna þegar þeir voru í sjötta flokki. „Heyrðu vinur, má ekki bjóða þér að láta kasta í þig grjóthörðum leðurbolta á 130 km hraða næstu 30 árin? Því oftar sem þú færð hann í þig, því betra.“ Magnað sport!