Þung staða álversins í Straumsvík (ISAL) er ekki ný af nálinni. Reksturinn hefur verið óarðbær um langt skeið – tap ISAL frá 2016 nemur yfir 20 milljörðum – og framleiðsla álversins var nýlega minnkuð um 15 prósent vegna taprekstursins. Endurnýjaður raforkusamningur við Landsvirkjun fyrir um áratug, þar sem orkuverðið var hækkað og tenging við álverð réttilega afnumin, hefur ekki hjálpað til en aðrir þættir, einkum erfiðleikar á hrávörumörkuðum, skipta þar meira máli. Aðföng hafa hækkað í verði og á sama tíma hefur heimsmarkaðsverð á áli lækkað verulega. Með stóraukinni álframleiðslu Kínverja, sem niðurgreidd er af þarlendum stjórnvöldum og stendur nú undir um 60 prósentum af álframleiðslu heimsins, hefur rekstrarumhverfi vestrænna álfyrirtækja versnað til muna. Útflutningur á áli frá Kína hefur farið vaxandi og haldið niðri álverði. Ólíklegt er að þessi staða taki breytingum í náinni framtíð og álverð verður því áfram undir þrýstingi til lækkunar.

Rio Tinto, eigandi ISAL, lætur nú að því liggja að rekstri álversins kunni að verða hætt. Félagið hefur boðað endurskoðun á starfsemi álversins, þar sem meðal annars verði skoðað að loka því, til að meta rekstrarhæfi þess og leita leiða til að bæta samkeppnisstöðuna. Fram undan eru viðræður við Landsvirkjun um raforkusamning félagsins en forstjóri álversins hefur sagt „aðalvanda“ fyrirtækisins stafa af háu orkuverði sem sé mun óhagstæðara en önnur álver þurfa að greiða. Sú fullyrðing verður að teljast talsverð einföldun. Þótt breytingar verði gerðar á samningnum til lækkunar á orkuverðinu, ákvörðun sem erfitt er að réttlæta án ríkra ástæðna, yrði rekstur álversins eftir sem áður þungur ef aðrir ytri þættir héldust óbreyttir.

Verðmæti slíkra langtíma raforkusamninga Landsvirkjunar, sem er í eigu landsmanna, hleypur á mörg hundruð milljörðum.

Er hótun Rio Tinto trúverðug? Fyrir liggur að álverið er skuldbundið til að kaupa að lágmarki um 80 prósent raforkunnar af Landsvirkjun fram til ársins 2036, óháð því hvort álverið verði starfrækt. Fullvíst má telja að forsvarsmenn álversins hóti málaferlum, komi Landsvirkjun ekki til móts við kröfur álrisans um lægra orkuverð, þar sem látið verður reyna á ákvæði kaupskyldunnar og hvort móðurfélagsábyrgð sé til staðar. Mikilvægt er að hafa í huga þá gríðarlegu hagsmuni sem eru í húfi. Verðmæti slíkra langtíma raforkusamninga Landsvirkjunar, sem er í eigu landsmanna, hleypur á mörg hundruð milljörðum. Lækkun orkuverðs, jafnvel þótt tímabundið væri, myndi þýða að Landsvirkjun yrði af umtalsverðum fjárhæðum.

Álverið í Straumsvík er vissulega ekki eins og hvert annað fyrirtæki á Íslandi. Það er einn mikilvægasti og verðmætasti viðskiptavinur Landsvirkjunar – nærri fjórðungur af raforkusölu hennar er til álversins – og verði starfsemi þess hætt hér á landi yrði það mikið efnahagslegt áfall, að minnsta kosti til skemmri tíma. Álverið stendur undir um 60 milljörðum í útflutningstekjur á ári og um fimm hundruð manns starfa hjá fyrirtækinu.

Staðan er því ekki einföld. Vandinn sem Landsvirkjun kann að standa frammi fyrir, nú þegar minni og stærri viðskiptavinir fullyrða að orkuverðið sé ekki lengur samkeppnishæft, er að það verði erfitt að finna aðra kaupendur að því magni af orku sem gæti losnað á næstu árum – einkum nú þegar áform um sæstreng til Bretlands virðast því miður óraunhæfari en áður. Það er eins gott að stjórnendur Landsvirkjunar, sem hafa teflt djarft, séu reiðubúnir með plan B. Ef ekki er hætta á að illa geti farið.