Tilefni skrifa minna er viðtal við Jón Arnór Stefánsson, fyrrverandi körfuknattleiksmann, sem birtist á Stöð 2/Visir.is en þar rifjar hann upp þegar hann sem ungur drengur búsettur í Laugardalnum þurfti að leita út úr hverfinu til að stunda sína eftirlætisíþrótt. Þegar Jón Arnór lítur yfir sviðið í dag, 30 árum síðar, sér hann óbreytta stöðu í hverfinu hvað varðar aðstöðu fyrir iðkun inniboltagreina fyrir sín börn.

Í Laugardalnum eru glæsilegustu mannvirki landsins sem borgin hefur á liðnum árum byggt upp af myndarskap. Öll þessi mannvirki eru hugsuð frekar til notkunar fyrir alla landsmenn en íbúa Laugardals. Ég nefni Laugardalsvöllinn, Laugardalshöllina og sundlaugarnar í Laugardal. Í dalnum eru einnig sérgreinafélög sem sinna öllu höfuðborgarsvæðinu s.s. TBR en þar er leikið badminton og borðtennis, SR með sína skautahöll, fimleikahús Ármanns, frjálsíþróttahöllin og loks íþróttahús fatlaðra við Hátún 14.

Þegar svæðið, sem afmarkast af Sæbraut frá Katrínartúni/Höfðatúni og austur að Elliðaám og Suðurlandsbraut vestur að Katrínartúni/Höfðatúni, er skoðað sést að það er ekkert íþróttahús á þessu svæði til að stunda hefðbundnar inniboltagreinar s.s. körfubolta, handbolta eða blak sem íþróttafélag/félög hefur stjórn á til að skipuleggja og stjórna íþróttastarfi í hverfinu.

Frá því að ég flutti í hverfið 1984 og fór að fylgjast með hefur lítið breyst. Ég starfaði við skólamál í dalnum í rúm þrjátíu ár og á þeim tíma var stöðugt bent á aðstöðuleysi skólanna, einkum Laugalækjarskóla. Vinnuhópar voru stofnaðir, íþróttafélögin mynduðu þrýstihópa en ekkert hefur þokast áfram.

Í Fréttablaðinu fyrir skömmu birtist greinin „Það vantar hús“ eftir Viggó H. Viggósson, stjórnarmann í ÍBR. Í greininni kynnir hann hugmynd sem rædd hefur verið innan ÍBR í nokkurn tíma um uppbyggingu íþróttamannvirkis í Laugardalnum. Þessi hugmynd myndi í senn leysa fjölmörg vandamál s.s. aðstöðu fyrir landslið í inniboltagreinum, vanda Ármanns/Þróttar og skólanna í hverfinu og um leið vanda fjölmargra annarra íþróttagreina. Ég bind vonir við að ríki, borg og sérsambönd ÍSÍ skoði þessa hugmynd enn frekar.

Ég hef setið í stjórn ÍBR í 10 ár. Á þessum árum hef ég bent á það aðstöðuleysi sem íþróttafélögin og skólarnir í Laugardal búa við. Þrátt fyrir góða umræðu og velvilja þá hefur ekkert gerst. Börn og ungmenni í Laugardal eiga betra skilið.

Á meðan ríki og borg eru í störukeppni um þjóðarhöll gerist fátt. Þessi vonda staða bitnar ekki bara á körfu-, handbolta- og blakfólki, hún bitar miklu meira á börnum og ungmennum í Laugardalnum. Mér hefur fundist á liðnum árum íbúar dalsins hafa sýnt borgaryfirvöldum mikla þolinmæði og ekki myndað þann þrýsting sem þarf til að þoka málum áfram. Ég vona að Jón Arnór og hans góði hópur haldi áfram að benda á aðstöðuleysið og myndi þrýstihóp til að þoka þessu máli áfram – það eru kosningar í vor.