Fyrsti þáttur af átta í heimildaþáttaröðinni Stormur, þar sem kórónafaraldrinum er fylgt eftir frá sjónarhorni aðgerðastjórnenda og viðbragðsaðila, var sýndur á RÚV á sunnudagskvöldið. Fyrsti þáttur lofar góðu og afar mikilvægt er að halda heimildum faglega og fallega til haga um þessa hamfaratíma.

Það er áhrifaríkt og átakanlegt að sjá sögurnar á bak við fréttirnar sem við öll heyrðum, þegar við sjáum fólkið sem raunverulega lenti í því sem við öll óttuðumst.

Fyrsta dauðsfall faraldursins hér á landi reynist vera ástarsaga sem verður að botnlausum harmi ungrar konu á vordögum lífsins. Í ólýsanlegum aðstæðum einangrunar, sorgar og ótta kemur til sögunnar Gylfi Þór Þorsteinsson, maðurinn sem stjórnaði farsóttarhótelinu, einu af meginverkefnum baráttunnar. Í frásögn myndarinnar kemur fram að samband þeirra var fallegt og einstakt – lýsandi fyrir ástand sem var ógnandi og harmþrungið. Um leið náði það að draga fram það besta í okkur mannfólkinu; samheldni, hugvit og kærleik. Um engla var á einum stað sagt að þeir væru eins raunverulegir og það besta sem býr í okkur.

Sögur myndarinnar eru ekki síst mikilvægar til að halda staðreyndum faraldursins til haga. Það er eiginlega orðið óþolandi að þurfa að hlusta á vitfirrtar samsæriskenningar um alheims-hóax og bólusetningalygi, sem virðist stundum vaxa ásmegin eftir því sem lengra líður, á kostnað raunverulegra aðstæðna sem hversdagshetjur, eins og Gylfi, stigu inn í.

Tregaslagur ungu konunnar, af þætti Gylfa, sögur af umkomulausum ástvinum, einangruðum í dauðastríði og ótrúlegu afreki starfsfólksins á Vestfjörðum, eru fáein dæmi um raunsögur tímans sem við megum aldrei gleyma.