Að minnka losun gróðurhúsalofttegunda er eitt mikilvægasta verkefni samtímans. Það er því mikilvægt að ekki sé á sveimi misskilningur um gagnsemi endurheimtar votlendis, í því sambandi. Á vefsíðu Votlendissjóðsins má finna svör við ýmsum vangaveltum úr umræðunni, með vísun í rannsóknir sérfræðinga.

Mýrar (votlendi) eru sérstakar því gróður sem vex í þeim rotnar ekki nema að mjög litlu leyti og safnast því fyrir. Jurtaleifar geta þar safnast saman í mjög þykk mólög í hundruð eða þúsundir ára. Ástæðan fyrir þessu er sú að vegna vatnsins er lítið súrefni til staðar og því ekki hagstæð skilyrði fyrir örverur til að brjóta niður lífræna efnið og breyta því í CO2 (koldíoxíð). Þegar votlendi er framræst (skurðir grafnir) minnkar vatn í jarðveginum, súrefnið kemst að og skilyrði skapast fyrir örverurnar til að brjóta niður lífræna efnið. Rotnun hefst og þar með losun á CO2.

Fyrir framræstar mýrar í okkar loftslagsbelti nemur nettó losun um 20 tonnum af CO2 á hektara á ári. Einn fótboltavöllur er tæpur 1 hektari. Til samanburðar losar ný bifreið um 2 tonn af CO2 á ári. Þessar tölur eru viðurkenndar af milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC), stundum nefnd Loftslagsráð Sameinuðu þjóðanna. Niðurstöður rannsókna Landbúnaðarháskólans, Landgræðslunnar og Háskóla Íslands sem hafa verið gerðar og eru í gangi, gefa ekki tilefni til að ætla að losun frá íslenskum mýrum sé almennt frábrugðin losun frá mýrum á sambærilegum stöðum á hnettinum.

Samkvæmt rannsókn Susanne Möckel, við Háskóla Íslands, innihalda íslenskar mýrar meira af steinefnum en mýrar á sambærilegum stöðum á hnettinum, vegna gosefna frá eldfjöllum og stöðugs áfoks. Vegna steinefnanna er íslenskur mýrajarðvegur iðulega þyngri í sér en norrænar mómýrar. Heildarmagn kolefnis í hverjum rúmmetra er eigi að síður svipað og jafnvel meira í íslenskum mýrum en þar sem steinefnamagnið er minna. Við framræslu verður losun CO2 því sambærileg eða jafnvel meiri. Viðtal við Susanne má finna á Votlendi. is þar sem hún fer yfir og útskýrir sínar rannsóknir.

Hægt er að kynna sér gagnsemi endurheimtar votlendis á votlendi.is