Við lifum sögulega tíma á svo marga vegu. Hver bylgja kófsins rekur aðra. Ekki nóg með það heldur hafa á síðustu árum risið nýjar og nýjar #Églíka-bylgjur.

Sú nýjasta er kannski sú öflugasta. Allt í einu er ekki lengur pláss fyrir dónakarlinn eða dónakerlinguna í samfélaginu. Allt í einu þurfa meintir gerendur kynferðisbrota að víkja. Tafarlaust. Það er nýbreytni. Áður fyrr snerist umfjöllunin um þolandann. Var viðkomandi að segja satt? Hvað gerði þolandi til þess að kalla þetta yfir sig? Skömmin var þolandans.

Skyndilega hefur þetta snúist við. Samfélagið trúir þolendum frekar. Því miður hafa of margir orðið fyrir barðinu á einstaklingum sem virða ekki mörk og brjóta á öðru fólki. Telja sig hafa tilkall til þess að gera bara það sem þeim sýnist vegna þess hverjir þeir eru.

Ég hef sjálf hitt dónakarlinn oftar en einu sinni. Eins og margir aðrir þolendur gerði ég lítið úr atvikunum í aðstæðunum. Vildi ekki vera með vesen. Reyndi bara að koma mér út úr aðstæðunum. Sú tilfinning sem ég fann fyrir í vikunni var stolt. Stolt yfir því að upplifa ungar konur segja hingað og ekki lengra!

Í árhundruð hefur fólk sem brotið hefur verið á viljað geta sagt þetta: Stopp. Það heyrist ekki fyrr en samfélagið er tilbúið til að hlusta og trúa. Þegar það gerist verður þessi magnaða samfélagslega breyting. Dónakarlinn eða dónakerlingin þrífast ekki lengur. Þau þurfa að taka afleiðingum gjörða sinna. Skömmin er þeirra og þau þurfa að víkja. Félag íslenskra dónakalla er gjaldþrota.