Skoðun

Stöndum saman gegn aukinni misskiptingu

Í dag fögnum við alþjóðlegum baráttudegi verkafólks með kröfugöngum og baráttufundum um allt land. Með því sýnum við samstöðuna sem hefur verið lykillinn að árangri verkalýðsfélaga síðustu áratugi og mun verða það áfram.

Við þurfum á samstöðunni að halda nú sem aldrei fyrr. Misskiptingin í samfélaginu blasir við launafólki. Í hvert skipti sem kemur að því að semja um laun stórra stétta heyrist sami söngurinn um að ekki sé hægt að bæta kjörin því þá sé stöðugleikinn úti.

Það virðast alltaf vera þeir hópar sem eru á lægstu laununum sem eiga að bera ábyrgð á stöðugleikanum. Á meðan finnst þingmönnum, ráðherrum og stjórnendum fyrirtækja og stofnana fullkomlega eðlilegt að þeirra laun hækki um upphæðir sem eru úr öllu samhengi við það sem launafólk í landinu þekkir. Það er einfaldlega engin þolinmæði eftir gagnvart ofurlaunum og bónusum fyrir stjórnendur fyrirtækja og þá sem sýsla með peninga.

Í síðustu kjarasamningum hafa stéttarfélög lagt mikla áherslu á hækkun lægstu launa. En það þarf að gera betur því lægstu laun eru allt of lág. En hvers vegna finnur fólk ekki fyrir því að lægstu launin hafi hækkað? Á því er einföld skýring. Á meðan verkalýðshreyfingin hefur beitt sér sérstaklega fyrir hækkun lægstu launa hafa stjórnvöld ekki gengið í takt. Dregið hefur verið markvisst úr tekjujöfnunarhlutverki skattkerfisins, persónuafsláttur hefur ekki fylgt launaþróun, vaxtabætur og barnabætur hafa verið skertar verulega og húsnæðisbætur sömuleiðis. Þetta er algerlega óþolandi og gegn þessu þurfa stéttarfélögin og bandalög þeirra að berjast.

Það hafa verið átök í verkalýðshreyfingunni undanfarin misseri. Það er heilbrigðismerki að tekist sé á um hugmyndafræði og aðferðir og því eigum við að fagna. En við verðum líka að vera nægilega stór til að standa saman og ná fram kjarabótum fyrir launafólk í landinu, sér í lagi þá sem lægstar hafa tekjurnar. Við þurfum að byggja upp fjölskylduvænt samfélag þar sem áherslan er á velferð, jöfnuð og samhygð. Við erum sterkari saman.

Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Skoðun

Konur og karlar
Gunnar Árnason

Skoðun

Réttu barni bók
Lilja Alfreðsdóttir

Fastir pennar

Milljón og einn
Guðmundur Steingrímsson

Auglýsing

Nýjast

Lúxusverkir
Lára G. Sigurðardóttir

Jöklanna tindar
Kolbrún Bergþórsdóttir

Launaleynd og þyngdarlögmálið
Sif Sigmarsdóttir

Déjà vu
Kristín Þorsteinsdóttir

Spíser dú dansk?
Sirrý Hallgrímsdóttir

Fram­sóknar­menn á frama­braut
Arnar Sverrisson

Auglýsing