Almenningur hefur nú þegar aðgang að mjög hraðvirku alneti og hefur ekkert við meiri gagnahraða að gera. 5G mun taka frá okkur störfin, auka eftirlit með okkur og það sem er verst, skaða heilsu okkar. 5G er tæknimartröð framtíðarinnar.

5G er forsendan fyrir sjálfkeyrandi bílum. Bílarnir fá þær upplýsingar sem þeir þurfa um umhverfi sitt nógu hratt til að forðast árekstra. Með 5G biðja tækin um gögn og fá þau í sömu andrá. Við þekkjum snjallsíma og snjallsjónvörp en eigum eftir að fá snjallheimili, snjallverksmiðjur, snjallspítala og já snjallborgir. Róbótar munu taka við störfunum okkar í snjallverksmiðjum og vélmenni framtíðarinnar eiga að geta framkvæmt flóknar skurðaðgerðir inni á snjallspítölum. Maður spyr sig, ef fólk á meira og minna að sitja heima í framtíðinni og þiggja ölmusu frá stjórnvöldum, hver á þá að kaupa vörurnar sem róbótarnir framleiða? Hér áður voru tækniframfarirnar til að auka afkastagetuna og létta manninum störfin. Lyftari þurfti mann til að keyra hann en nú er framtíðin semsagt sjálfkeyrandi lyftari.

Á síðasta ári kvittaði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fyrir því að Ísland skyldi verða hluti af best tengda 5G-svæði heims og nokkur tilraunaverkefni eru komin á laggirnar. Við Ráðhúsið og Höfðatorg eru t.d. snjöll hjólastæði sem hægt er að læsa með korti eða appi. Ef einhver reynir að stela hjóli gefur hjólastæðið frá sér viðvörunarhljóð og smellir mynd af viðkomandi. Viljum við að tortryggnin gagnvart náunganum verði svo mikil í framtíðinni að hér verði allt stútfullt af myndavélum og minnstu smáglæpir upplýstir með þeim? Á snjallheimilum framtíðarinnar verður hægt að fylgjast með raforkunotkun hvers einasta heimilistækis og hvenær þau eru í notkun með snjallrafmagnsmælum. Kannski ágætt að það myndi fljótt uppgötvast ef einhver væri að reyna að rækta kannabis á heimili sínu?

Helsta áhyggjuefnið er hins vegar að við verðum stöðugt útsett fyrir rafgeislun sem verður tífalt til hundraðfalt meiri en þekkist í dag. 5G starfar á mun hærri tíðni en gamla tæknin og bylgjurnar ná skemur og eiga erfiðara með að komast í gegnum fast efni. Þetta þýðir að setja þarf sendi á sennilega annan hvern ljósastaur og upp á mörg húsþök og eitthvað á það nú eftir að kosta. Ætlar svo Vodafone að vera með einn sendi, Síminn annan og Nova síðan enn einn sendinn einsog þekkist í gamla kerfinu?

Á netinu er að finna bréf 231 vísindamanna og lækna frá 36 löndum frá árinu 2017 til Evrópusambandsins: „Vísindamenn vara við hugsanlegum alvarlegum heilsufarsskaða af völdum 5G“ (Scientists warn of potential serious health effects of 5G). Vísindamennirnir skora á Evrópusambandið að fresta uppsetningu á 5G uns afleiðingar þess á mannfólk og umhverfi hafi að fullu verið rannsakaðar af vísindamönnum óháðum hagsmunaöflunum. Vísindamennirnir fullyrða að fjöldi rannsókna hafi með sannfærandi hætti staðfest skaðsemi þráðlausrar tækni. Þeir vitna til dæmis í stærstu rannsóknina sem gerð hefur verið (kostaði 25 milljónir dollara), niðurstöður hennar var að geislun undir öryggismörkum olli tölfræðilega marktækri aukningu á heila og hjartakrabbameini hjá tilraunadýrunum. Þeir vitna í varnaðarorð frá árinu 2016 (EUROPA EM-EMF Guideline 2016) þar sem segir: „Það eru sterkar sannanir fyrir því að langtíma rafgeislun getur valdið sjúkdómum eins og krabbameini, alzheimer og ófrjósemi … Algeng einkenni hjá fólki sem er mjög næmt fyrir rafgeislun er höfuðverkur, einbeitingarerfiðleikar, svefnörðugleikar, þunglyndi, orkuskortur, síþreyta og flensulík einkenni.“

Á netinu er að finna undirskriftasöfnun gegn 5G sem vert er að kynna sér. Undirskriftirnar eru komnar yfir 100 þúsund: „International appeal: Stop 5G on earth and in space“.

Ætlum við virkilega að fara íslensku leiðina í þessu? Vinna eitthvert kapphlaup, henda upp 5G og taka síðan afleiðingunum af því sem verða sennilega mjög alvarlegar.