„Megum við faðma þig?“ spurðu ungir drengir bláókunnuga konu. Þeir voru að leysa þraut í ratleik sem ég setti saman fyrir átta ára afmæli sonar míns. Drengjunum skipti ég í þrjá hópa og vildi svo til að allir bönkuðu upp á hjá sömu konunni, sem var því föðmuð þrisvar sinnum þennan dag. Að minnsta kosti. Ljósmyndin sem þeir tóku til staðfestingar sýndi konu sem brosti breitt. Það er bara einhver ljúf tilfinning sem kviknar þegar við erum föðmuð af góðvild. Líkt og hver einasta fruma umbreytist í stjörnu.

Stjörnueðlisfræðingurinn Neil deGrasse segir að við mannfólkið séum lifandi stjörnuryk. „Atómin sem mynda líkama okkar hafa verið rakin til stjarna sem sprungu fyrir milljörðum ára og dreifðu atómum þessum um himingeiminn. Þar af leiðandi erum við líffræðilega tengd hverri einustu lífveru í alheiminum.“ Samkvæmt kenningum deGrasse erum við öll af stjörnum komin.

Eins tengd og við ættum að vera þá höfum við verið að fjarlægjast hvert annað. Einsemd og félagsleg einangrun hefur stóraukist hér á landi, allt frá barnæsku til efri ára. Þá jók kórónuveirufaraldurinn félagslega einangrun hjá viðkvæmum hópum, enda var fólk hvatt til að eiga í sem minnstum samskiptum við aðra. Helst faðma engan. Síðan er fleira fólk að greinast með einhverfu sem margir hverjir þola illa faðmlög. Þá eru mörkin milli faðmlags og kynferðislegrar áreitni persónubundin og því kjósa fleiri að sleppa þeim alveg.

Kjarninn í þessu er samt að það er gjöf að gefa góðvild. Til dæmis að faðmast þegar það á við. Ef til vill minnir það okkur á sameiginlegan uppruna. Því við erum öll stjörnur sem voru einu sinni eitt.