Umræðuvaldið hefur færst úr stað á Íslandi. Blessunarlega. Frá gömlu frekjupólitíkinni til fræðilegrar upplýsingar. Burt úr gortsamri og kokhraustri yfirlýsingagleðinni, oft og tíðum án innihalds, að vel rýndri visku sem sett er fram án sérhagsmuna.

Þetta hefur gerst hægt og bítandi, en á síðustu árum nokkuð augljóslega – og veldur þar mestu síaukið framboð af áheyrilegum og trúverðugum sérfræðingum af öllu tagi, ekki síst vel menntuðum konum í seinni tíð sem geisla af sjálfstrausti og áreiðanleika í hverju fréttaviðtalinu af öðru, sakir góðrar menntunar, upplýstrar umræðu, kvenfrelsis og víkjandi karlaveldis.

Og ekki síst vegna kröfu fólks um að því sé sagt satt og rétt frá, að bullið víki fyrir vitinu.

Ómurinn af innantómu gaspri er nefnilega farinn að svíða í eyru.

Stjórnmálamenn ráða ekki lengur þjóðmálaumræðunni, ólíkt fyrri tímum, sérstaklega á síðustu öld – og tímunum þar á undan – þegar orð þeirra voru hafin yfir allan vafa af fylgispökum sannfærendum. Þá töluðu menn yfir hausamótum fólks. Ekki við lýðinn, heldur til hans. Þjóðfélagið skiptist á milli pólitíkussins og pöpulsins. Einn var æðri, annar lægri.

Þannig var tíðarandinn. Og það var ekkert við því að gera. Alltént lengi framan af.

Þrennt sagði afi minn vera mikilvægast í lífinu. Að vera bjartsýnn, ná sér í góða konu og kjósa Framsóknarflokkinn. Þar væri komin sannkölluð uppskrift að gæfu manns í lífinu.

Þarna talaði bóndinn úr ystu byggðum Íslands, af Ströndum norður, í veglausri byggð.

Inni í stofunni hans á Melum hékk ljósmynd af Hermanni Jónassyni, formanni Framsóknarflokksins til næstum tveggja áratuga á síðustu
öld, sjálfum glímukóngi Íslands frá 1921, þjóðhetjunni, heljarmenninu, en umfram allt þingmanni Strandamanna í heilan aldarfjórðung þar til kjördæmakerfinu var breytt undir 1960, í óþökk afskekktra bænda.

Afi var ekki einn um þetta. Onei. Karlinn var ekkert sér á báti. Tilbeiðsla hans á formanni og flokki var í anda þeirrar ævilöngu tryggðar og hollustu sem menn á þessum tíma sýndu sjálfum fæðingarflokki sínum

Svona var þetta í öllum flokkum fram eftir síðustu öld. Æviskeiðið var ætlað einum og sömu samtökunum. Þegnskapurinn var ofar öllu. Og menn skiptu ekki um skoðun. Slík svik voru til ævarandi skammar. Þau jafngiltu útlegð úr sýslunni, alltént úr hreppnum.

Og þvíumlíkt var aldrei áhættunnar virði.

Man þegar ég stóð á stóra sviðinu í Súlnasal Hótels Sögu vorið 1990. Borgarstjórnarkosningar voru að baki. Og byrjað að telja. Kosningavaka Stöðvar 2 var að nálgast suðumarkið. Spennan í algleymingi.

Og ég á rétta staðnum. Þar sem stórfréttin blasti við. Eftir fagurbláu teppinu gekk sigurvegari kvöldsins, vígreifur og bar hökuna hátt: Davíð Oddsson hafði aflað Sjálfstæðisflokki sínum 60 prósenta fylgi í Reykjavík, en þar var kominn stærri sigur íhaldsins en nokkru sinni, fyrr og síðar.

Yfirburðirnir voru algerir.

Og Davíð gerði gys að smáflokkunum sem fengu klinkið upp úr kjörkössunum. Dró forystumenn þeirra sundur og saman í háði og spotti. Hafði ríka innistæðu fyrir því. Átti borgina.

Og tók landsvöldin ári síðar.

Hélt þeim lengur en nokkur annar.

En þarna í Súlnasalnum góndi ég ekki aðeins á gustmikinn borgarstjórann. Heldur líka á hirðina. Aldrei á minni stuttu fréttamennskutíð hafði ég augum litið aðra eins lotningu flokksmanna fyrir foringja sínum og þetta maíkvöld við Hagatorg. Karlar komust við og konur grétu. Klappið ætlaði aldrei að hætta, ekki frekar en uppklappið á uppklappið ofan.

Þetta var engu líkt. Heilög stund. Það var eins og himneskum bjarma hefði slegið á salinn. Fólkið féll á hnén, alltént í huganum.

Framtíðin var ráðin.

Tíu árum fyrr hafði Gunnari heitnum Thoroddsen nánast tekist að eyðileggja íhaldsaflið sem öllu þurfti að ráða. Og honum var aldrei fyrirgefið það. Hann klauf Sjálfstæðisflokkinn. Blóðið rann úr Geirsarminum. Það voru ekki bara flokkssvik heldur föðurlandssvik.

En Davíð reddaði þessu. Það mátti ekki seinna vera. Klæðskerasaumaði flokkinn upp á nýtt – og varð kóngur um stund. Gekk inn bláa dregilinn eins og guðleg vera. Það er ógleymanlegt.

Hann stýrir núna síðasta flokksblaðinu sem veit raunar ekki hvoru megin hryggjar það á að hanga, Miðflokksmegin eða á Sjálfstæðissíðunni. Og lesturinn er ekki nema svipur hjá sjón frá því höllin hýsti blaðið.

Það er núna úti í móa.

Og það er svo sem eftir öðru í íslenskri pólitík sem hefur tapað áttum á nýrri öld. Í öllu falli meðfæddri fylgispektinni. Lífstíðarfullvissunni. Það er ekki lengur svo að af flokki skuli maður koma. Og að flokki skuli maður aftur verða. Flokkurinn er ekki lengur lífsspursmál. Það er líf án skírteinis.

Akkúrat það hefur breyst. Varanlega. Og ástæðan er ekki aðeins sú að upplýsing og fjölmiðlun hefur orðið faglegri og hlutlægari, svo og langtum gætilegri og sannreyndari en fyrr á tímum, heldur hitt: Það er búið að hafa vit fyrir pólitíkinni. Fólk veit meira en flokkurinn.

Og svo þetta: Vangaveltur tveggja pólitíkusa sem ausa hvor annan hæfilega miklum formælingum – og helst af öllu ærumeiðingum – eru ekki lengur eftirsóknarverðar í huga fólks. Hanaslagur af því tagi var forvitnilegur í gamla daga þegar stjórnmálamenn voru landsfrægar fígúrur sem skemmtikraftar hermdu eftir á mannamótum.

Það er búið. Tími valdaglaðra stórmenna í stjórnmálum er búinn. Og stóru flokkanna líka. Og af hverju? Jú, af því að vitið vann.