Sem áhorfandi að kosningabaráttunni hef ég ekki getað varist þeirri hugsun að baráttan sé daufari nú en áður. Auðvitað freistast ég til að halda því fram, sem fyrrverandi alþingismaður, að pólitíkin sé ekki lengur eins og hún var, hugsjónirnar séu núna engar og baráttumálin hjóm eitt, en vitaskuld sé ég ekki raunverulegan grundvöll til að halda slíku fram nema í spaugsömu alvöruleysi. Að sjálfsögðu eru hugsjónir til staðar. Að sjálfsögðu eru baráttumál til staðar, skoðanir og gildi. Og að sjálfsögðu eru stór úrlausnarefni fyrir hendi, sem þarfnast stjórnmálaátaka og niðurstöðu. Það er líka klárt fólk á sviðinu og mannvalið hið fínasta, en samt sýnist mér þetta blasa við: Baráttan er dauf. Hún er ekki að ná flugi. Það er auðvelt að verða ringlaður. Um hvað er kosið? Hvar liggja átakalínurnar? Á hvaða hátt skiptir atkvæðið máli?

Það er heilög skylda manns, sem þegns í lýðræðisríki, að nýta kosningaréttinn. Ég mun ljá því afli atkvæði sem ég tel endurspegla mín gildi best og því fólki sem ég treysti best til að tala fyrir þeim gildum, en hitt sýnist mér þó einnig vera morgunljóst þegar ég horfi yfir sviðið: Mér finnst ég ekki geta haldið því fram að ef einhver einn flokkur landi sigri muni Ísland breytast mikið í kjölfarið. Að þessu leyti upplifi ég kosningarnar ekki sem dramatískar.

Um nokkurt skeið hef ég þróað með mér kenningu um íslensk stjórnmál. Í stuttu máli er hún sú, að vegna ákveðins fyrirkomulags í skipulagi þingsins - hvernig þingsköpum er háttað - er nánast ómögulegt fyrir róttæk öfl að koma málum sínum í gegn, jafnvel þótt þau njóti meirihluta. Önnur leið til að segja þetta er einfaldlega þessi: Vegna galla í þingsköpum geta tveir þingmenn, hvað þá fleiri, stoppað þau mál sem þeim sýnist.

Þetta var ekki svona. Einu sinni voru þingsköp þannig að þingmenn máttu tala eins lengi og þeim sýndist, en ekki eins oft og þeim sýndist. Margir reyndu að stöðva mál með því að tala lengi, jafnvel í margar klukkustundir, en alltaf kom að því að þeir þurftu að pissa. Þá var keppni lokið. Nú er málum háttað þannig, að þingmenn mega ekki tala eins lengi og þeir vilja, heldur eins oft og þeir vilja. Sé ætlunin að stöðva mál á ferð gegnum þingið, er þetta fyrirkomulag mun hentugra. Nú geta tveir þingmenn skipst á að fara í pontu, og jafnvel talað hvor við annan í andsvörum út í hið óendanlega, og pissað á milli.

Kenningin er sú, að vegna þess að róttæk mál og umdeild eiga nánast enga von um að verða samþykkt - mæti þau einarðri andstöðu - er pólitíkin orðin svona eins og hún er. Línur eru óskýrari, gráa svæðið í yfirlýsingunum er stærra og fátt er um bein loforð. Stjórnmál virðast hafa þróast yfir í svokölluð consensus-stjórnmál, eða samkomulagsstjórnmál, þar sem breytingar verða ekki nema allir vilji þær, eða að minnsta kosti enginn sé of mikið á móti. Þetta þarf ekki að vera slæmt, en er í öllu falli umhugsunarefni. Af þessum sökum mun ekkert gerast í stóru gömlu deilumálunum á Íslandi; kvótakerfinu, stjórnarskránni, ESB og öllu hinu, sama hversu oft er kosið.

Ég ákvað að nördast pínulítið í excel. Á síðasta þingvetri, frá 2020 til 2021, lögðu þingmenn fram 304 lagafrumvörp. Á kosningavetri hefði mátt ætla að þinghaldið hefði einkennst af miklum átökum, jafnvel í heimsfaraldri og kannski ekki síst út af honum. Öðru er hins vegar að heilsa. Þetta blasir við: Ekkert umdeilt mál, sem djúpstæður ágreiningur er um, fór í gegnum þingið. Núll. Raunar virðast afskaplega fá slík mál hafa verið lögð fram. Alls urðu 152 frumvörp að lögum. Þar af telst mér til að 140 þeirra hafi ekki mætt neinni andstöðu, eða um 92%. Aðeins eitt frumvarp af 96 frumvörpum stjórnarandstöðu fékk náð, og það án nokkurrar andstöðu. Af öllum afgreiddum frumvörpum mættu 12 teljandi mótbárum, en þær virðast ekki djúpstæðar. Hefðbundið er til dæmis að stjórnarandstaða styðji ekki fjárlög og tengd frumvörp. Eins getur krafa um meiri heildarsýn, og þess háttar, gert það að verkum að sumir séu á móti.

Staðreyndin er sú að umdeild mál komust hvorki lönd né strönd. Mér sýnist ráðherrar, sem starfa í meirihluta, hafi lagt fram átta slík mál. Meira frjálsræði í leigubílaakstri, hálendisþjóðgarður, rýmkun í áfengissölu, frjálsræði í mannanöfnum, afglæpavæðing neysluskammta, breytingar á stjórnarskrá, aukin réttindi innflytjenda og bætt þjónusta við flóttafólk eru allt mál sem ráðherrar máttu horfa á renna í sandinn.

Hvað yrði þá um róttækari mál? Stjórnmálin eru múlbundin íhaldsseminni. Sumum kann að finnast það fínt, en er það gott fyrir lýðræðið?