Í aðdraganda síðustu kosninga var það slagorð Vinstri grænna að það skipti máli hver stjórnar. Sölupunkturinn var væntanlega sá að ríkisstjórn með aðkomu Vinstri grænna yrði bæði vænni og grænni. Jafnvel þótt reynslan hefði ekki leitt neitt slíkt í ljós.
Þeirra framlag undanfarin ár hefur nefnilega fyrst og fremst snúist um að vera varadekkið á annars rasandi og fallvöltum vagni Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Þar er ekki að finna sérdeilis mörg græn mál, né heldur mál sem teldust vinstrisinnuð í framkvæmdinni.
Í staðinn fyrir að efla almenningssamgöngur til framtíðar eru skapaðar ívilnanir sem margfalda fjölda einkabíla á götum úti. Lögreglan er síðan komin með rafbyssur án þess að það hafi verið borið undir kóng, prest eða Alþingi – og svo mætti áfram lengi telja.
Margir gallar – engir kostir
Bak við mörg þessara mála má þó oft finna einhverja áþreifanlega hagsmunabaráttu, einhverja raunverulega pólitík, hvort sem við erum sammála því að þetta sé góð pólitík eða ekki. Aftur á móti eru sum mál sem eru öllu óskýrari.
Frábært dæmi um slíkt er útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra, en það er virkilega erfitt að sjá hvaða hagsmuni það á að verja. Það fækkar ekki flóttafólki sem til landsins kemur, lengir frekar en styttir málsmeðferð og skerðir mikilvæg grundvallarmannréttindi flóttafólks. Ekki nóg með það að frumvarpið skerði réttindi flóttafólks – heldur eru ekki einu sinni einhverjir skrifræðishagsmunir í húfi, líkt og að auka skilvirkni eða minnka kostnað.
Núverandi lög ráða vel við vandamálið
Hvað skilvirkni varðar þá sýnir móttaka okkar á flóttafólki frá Úkraínu án nokkurs vafa að vandinn snýst ekki um lögin heldur framkvæmdina. Stjórnvöld eru svo léleg í því að fylgja lögunum að þau vilja breyta þeim til þess að gera lífið auðveldara fyrir sig, jafnvel þótt réttindi fólks á flótta séu fótum troðin og lífið gert margfalt erfiðara fyrir þau – eins og það hafi ekki verið nógu erfitt fyrir.
Að Vinstri græn séu tilbúin að fórna réttindum og jafnvel lífi og heilsu flóttafólks, sem í mörgum tilvikum eru börn, til að verja andlitslaust stjórnsýslukerfi kemur ekki endilega á óvart miðað við fyrri skref ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Samt eru þetta vonbrigði.
Komið að ögurstundu
Það er komið að ögurstundu í þessu máli. Þeim okkar sem líkar það illa að frumvarpið muni auka kostnað, minnka skilvirkni og skerða réttindi eins viðkvæmasta hóps samfélagsins ber að grípa til samheldins og þverpólitísks átaks. Hér þurfum við að standa saman. Ég hvet öll þau ykkar sem styðjið aðra flokka en Pírata en hugnast frumvarpið illa að tala við kjörnu fulltrúana ykkar og hvetja þá til að beita sér gegn málinu. Því fleiri því betra.
Ef það skiptir máli hver stjórnar, er þá ekki komið að því að Vinstri græn stjórni? Það er kannski ólíklegt að þau nái mikið af sinni stefnu fram í núverandi samstarfi en þau gætu í það minnsta hætt að hleypa áfram óskynsamlegum hugmyndum annarra flokka sem grafa undan mannréttindum – þá gætu þau allt eins leyft einhverjum öðrum að stjórna.
Höfundur er varaþingmaður Pírata.