Í þjóðaratkvæðagreiðslu 20 október 2012 lýstu rúmlega tveir þriðju kjósenda yfir stuðningi við að frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, sem lagt hafði verið fram ári áður, væri notað sem „grundvöllur að nýrri stjórnarskrá“. Þetta var merkileg niðurstaða sem í rauninni batt enda á ákveðna óvissu um Stjórnlagaráð – 25 manna ráð sem Alþingi skipaði í mars 2011 til að endurskoða stjórnarskrána.

Áður hafði Hæstiréttur ógilt kosningar til Stjórnlagaþings sem setti áform Alþingis um endurskoðunina í uppnám. Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna var engum blöðum lengur um það að fletta að Alþingi hafði fullt umboð þjóðarinnar til að vinna áfram með frumvarp Stjórnlagaráðs.

En svo fór þó ekki. Eftir mikla umfjöllun og umræður –að mörgu leyti fjandsamleg viðbrögð sérfræðinga og háskólasamfélagsins – gagnrýni frá hinni svokölluðu Feneyjanefnd auk eindreginnar andstöðu þáverandi stjórnarandstöðu fór það svo að atkvæði voru aldrei greidd um frumvarp að nýrri stjórnarskrá.

Það dagaði uppi í hrakförum stjórnarinnar sem tapaði stórt í kosningum vorið 2013.

Ekki vanmeta áhrif Stjórnlagaráðs

Tilraunir hafa verið gerðar til að endurlífga frumvarpið – síðast 2016 eftir að þáverandi forsætisráðherra hrökklaðist úr embætti og efnt var til nýrra kosninga, en allt hefur komið fyrir ekki.

Af þeim átta flokkum sem nú eiga fulltrúa á þingi eru aðeins tveir afdráttarlaust hlynntir því að hverfa aftur til frumvarps Stjórnlagaráðs. Eftir því sem tíminn líður verður ólíklegra að frumvarpið verði grundvöllur að nýrri stjórnarskrá. Jafnvel þótt margir kjósendur kunni að styðja það virðist áhugi fárra vera nægur til að láta þá afstöðu ráða atkvæði sínu.

En þetta þýðir ekki að vinna Stjórnlagaráðs hafi verið unnin fyrir gíg. Tilfellið er að frumvarp þess hefur nú haft mikil áhrif, og gjörbreytt umræðu um stjórnarskrá, bæði í einstökum atriðum og almennt.

Áhrif almennings

Þó að samstaða sé ekki um nýja stjórnarskrá hefur myndast skilningur á því að stjórnarskránni verður ekki breytt nema í samráði við almenning.

Á þessu kjörtímabili er verið að endurskoða nokkra lykilþætti íslensku stjórnarskrárinnar. Á vef Betra Íslands (betraisland.is) er boðið upp á samráð um þessa endurskoðun í samstarfi Íbúa ses. Háskóla Íslands og Forsætisráðuneytis. Þar er tækifæri til að taka þátt og hafa áhrif. Samráðið stendur í viku í viðbót. Ekki missa af því.