Undanfarið hefur staðið yfir undirskriftasöfnun þeirra sem krefjast þess að lýðveldinu verði sett ný stjórnarskrá. Er í því sambandi vísað til niðurstöðu stjórnlagaráðs frá árinu 2011 sem lagði til nýja stjórnarskrá með 114 greinum og niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór árið 2012.

Margt af þeim atriðum sem fjallað er um í tillögu stjórnlagaráðs er til bóta. Nefna má auðlindaákvæði, náttúruvernd og jafnt atkvæðavægi óháð búsetu.

Allt frá því að þjóðaratkvæðagreiðslan fór fram hefur hópur fólks krafist þess að Alþingi lögfesti hina nýju stjórnarskrá. Þetta fólk ber hag lands og þjóðar fyrir brjósti og í stórum dráttum er virðingarvert hversu einarðlega það hefur háð sína baráttu.

Þó verður að minnast þess að þjóðaratkvæðagreiðslan var ráðgefandi og kjörsókn var minni en æskilegt hefði verið. Engu að síður var vilji þeirra sem í henni tóku þátt leiddur fram.

Þá leiðir nýleg könnun í ljós að tæplega 60 prósent þátttakenda segja mjög mikilvægt eða frekar mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá.

Þarna hefði þurft að spyrja skýrar því leiða má að því rök að „ný stjórnarskrá“ geti haft mismunandi þýðingu í huga svarenda. Er það ný stjórnarskrá í heilu líki eða úrbætur á þeirri sem dugað hefur vel?

Í rökum þeim sem færð hafa verið fram fyrir þörfinni á nýrri stjórnarskrá hefur meðal annars því verið teflt fram að gildandi stjórnarskrá sé aðlögun á þeirri dönsku og hún sé gömul og úr sér gengin. Það er ekki alls kostar rétt. Gildandi stjórnarskrá hefur margsinnis verið breytt og aukið við hana eins og sést þegar lög númer 33 frá 1944 eru skoðuð á vef Alþingis.

Stjórnarskrá er æðst réttarheimilda og þarf að hvíla á traustum grunni. Flest ákvæði hennar hafa verið margprófuð fyrir æðsta dómstóli landsins og hafa ítrekað fengið ítarlega umfjöllun og túlkun dómstóla. Það er því ekki hlaupið að því að skipta út þrautreyndri stjórnarskrá fyrir nýja. Því getur fylgt réttaróvissa sem óráðlegt er að stofna til og langdregið getur verið að greiða úr.

En henni má breyta eins og gert hefur verið. Lagfæra brýn atriði eins og dæmin sanna og færa til aðstæðna sem áður voru óþekktar en skipta nú miklu máli. Auðlindaákvæði, umhverfisvernd og jafn atkvæðisréttur eru til dæmis um það.

Katrín Jakobsdóttir skrifar í nýlegri grein sem birtist í Fréttablaðinu að það sé hennar sannfæring að Alþingi skuldi samfélaginu að ljúka vinnu við stjórnarskrárbreytingar og að hún hyggist sem þingmaður leggja fram frumvarp til breytinga á tveimur ákvæðum hennar undir lok kjörtímabilsins. Annars vegar ákvæði um auðlindir og hins vegar um náttúru- og umhverfisnefnd.

Þó óvitað sé um hvert inntak þessara breytinga verður er þetta er skynsamleg nálgun hjá Katrínu og fagnaðarefni að stjórnarskránni sé sýnd sú virðing að breyta og lagfæra hana í skrefum, fremur en með umbyltingu.

Ísland þarf ekki nýja stjórnarskrá en henni þarf að breyta í tilteknum og afmörkuðum atriðum. Það er brýnt að auk þeirra þátta sem forsætisráðherra nefnir verði tekið á misvægi atkvæða.