Alma Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka áhugafólks um spilafíkn (SÁS), ritaði opið bréf í Fréttablaðinu til stjórnar Rauða krossins á Íslandi (RKÍ) þann 27. september sl. vegna tafa á tillögum starfshóps um happdrætti og fjárhættuspil sem Sigurður Kári Kristjánsson er í forsvari fyrir og svo aðra grein 4. október vegna Mannvinasöfnunar RKÍ. Stjórnarformaður Íslandsspila svarar báðum greinum hér fyrir hönd stjórnar.

Greinarhöfundur hefur áður spurt í Fréttablaðinu hvort rekstraraðilar spilakassa væru að tefja vinnu nefndarinnar. Fékk hún strax þau svör að svo væri ekki og raunar kom það fram í Fréttablaðinu 1. september sl. að dómsmálaráðuneytið hefði framlengt frest starfshópsins vegna umfangs verkefnisins og að vonast væri til að vinnu starfshópsins yrði skilað um mánaðamótin. Rétt er að árétta að greinarhöfundur á sjálf aðild að starfshópnum og veit því vel hvar vinna hans er stödd og vissi til dæmis af fundi hópsins sem boðað hefur verið til í vikunni.

Rekstraraðilar hafa þegar hafnað aðdróttunum um tafir í Fréttablaðinu. Þær eru ekki málefnalegar eins og sjá má á svörum ráðuneytisins, svörum rekstraraðilanna og aðildar greinarhöfundar að starfshópnum. Í báðum greinum sínum gagnrýnir greinarhöfundur RKÍ og véfengir góðan vilja alþjóðasamtakanna í seinna bréfinu í Mannvinasöfnunar átaki félagsins.

Í því sambandi nægir að nefna að það hefur áður komið fram að hjá Íslandsspilum væri unnið með skaðaminnkandi sjónarmið að leiðarljósi en þau krefjast stefnubreytingar hjá hinu opinbera en eigendur Íslandsspila hafa í því samhengi opinberlega stutt innleiðingu spilakorta. Það er miður að SÁS taki ekki undir þau sjónarmið skaðaminnkunar. Virðast þau telja að bann við spilamennsku hjálpi fólki sem glímir við spilavanda. Í hverju samfélagi eru hins vegar skiptar skoðanir um hvort bönn séu æskileg eins og sjá má af nýlegri umræðu á Alþingi Íslendinga, þar sem pólitískar ákvarðanir um slíkt eru teknar.

65% vöxtur í ólöglegri vefspilun

Greinarhöfundur spurði ennfremur í fyrri grein sinni hverjir afkimar veraldarvefsins séu. Frá sjónarhóli rekstraraðila eru afkimar veraldarvefsins erlendar vefsíður sem ekki lúta íslensku lagaumhverfi en það má vera ljóst að einn mikilvægasti þáttur skaðaminnkunar á Íslandi er að ná utan um alla spilun sem getur reynst fólki sem glímir við spilavanda erfið. Talið er að rúmlega sex milljarðar króna muni renna til ólöglegra erlendra vefsíðna árið 2022, en til samanburðar, þá runnu þangað um fjórir milljarðar króna árið 2018. Mestur er vöxturinn í „online casino“ eða um 65% á sama árabili. Það er því nauðsynlegt að spilakort nái einnig yfir þá spilun að mati Íslandsspila ef markmið um skaðaminnkun eiga að liggja til grundvallar.

Hafi fólk hagsmuni af málaflokknum ber því að spyrja sig hvað sé raunverulega best fyrir alla viðkomandi. Það á líka við um Ölmu. Sjónarmið Íslandsspila er að skaðaminnkun með spilakorti sé farsælasta leiðin fyrir alla hópa. Ekki bann. Málflutningur greinarhöfundar fyrir hönd SÁS ber þess merki að þau séu mótfallinn skaðaminnkandi leið og vilji bara bann. Hver er raunveruleg afstaða SÁS? Vilja SÁS bann eins og fram kemur á vef þeirra lokum.is eða skaðaminnkandi spilakort?