Dómsmálaráðherra hefur sagt að stjórnleysi ríki í veigamiklum málum sem hann ber ábyrgð á, til að mynda útlendingamálum. Slíkar yfirlýsingar dómsmálaráðherra eru til þess eins fallnar að ala á ótta. Sá er einmitt áttundi ráðherra dómsmála á einum áratug og verður væntanlega skipt út núna í vor. Ekki er stöðugleikinn nú meiri en svo á þeim bænum.

En ríkir ef til vill stjórnleysi í öðrum mikilvægum málaflokkum? Bankasalan síðasta vor var stjórnlaus eins og komið hefur á daginn. Og hvað með heilbrigðismálin? Húsnæðismálin? Baráttuna við verðbólguna? Í öllum þessum málaflokkum skortir pólitíska stjórn og stefnu.

Breytt mynd

Orð ráðherrans um stjórnleysi eru lýsandi fyrir ástandið á ríkisstjórninni í heild, en hún hefur nú setið í fimm ár, var mynduð árið 2017 utan um það markmið að koma á pólitískum stöðugleika og sitja sem fastast á stólunum. Það gekk vel í góðærinu og reyndar líka í glímunni við heimsfaraldurinn, þrátt fyrir alvarleg hagstjórnarmistök, en nú blasir við breytt mynd.

Við sjáum að ríkisstjórnin er orðin þreytt. Það sést best á máttlausum viðbrögðum hennar við stöðunni í heilbrigðiskerfinu, í húsnæðismálum og í baráttunni við verðbólguna. Þjóðin þarf breytingar, nú er kominn tími á sterka forystu sem hefur kjark til að hrista upp í hlutunum og það höfum við í Samfylkingunni.

Ónýtt frumvarp

Fyrsta málið á dagskrá Alþingis í gær var ónýtt og ómannúðlegt útlendingafrumvarp sem ríkisstjórnin reynir að ná í gegnum Alþingi eftir fjórar árangurslausar tilraunir. Nú hafa Vinstri græn ákveðið að leggjast flöt og samþykkja málið án fyrirvara. Það er dapurlegt að ríkisstjórnin sjái ekki þau tækifæri sem felast í því að hefja þverpólitíska og þverfaglega vinnu við endurskoðun útlendingalaga og stefnumótun í málefnum útlendinga. Frumvarpið leysir engan vanda við mótttöku flóttafólks, eykur heldur á vandann með tillögum sem m.a. fela í sér aukið heimilisleysi, örbirgð og synjun á lífsnauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.