Nýlega birtist grein í Fréttablaðinu með yfirskriftinni „Er umræða um klukkustillingu á villigötum?“ eftir Gunnlaug Björnsson. Með hliðsjón af innihaldi greinarinnar er svarið já! Stjarneðlisfræðingurinn beitir m.a. fyrir sig ónefndum læknum til að líkja lífeðlis- og svefnfræðingum, vísindamönnum sem tala fyrir leiðréttingu, við snákaolíusölumenn. Langt er til seilst, þegar rökin þrjóta!

Þó hittir greinarhöfundur sannarlega naglann á höfuðið þegar hann segir: „Við Íslendingar erum annálaðir svefnóreglumenn, drollum langt fram á kvöld, höngum í skjátækjum og förum seint að sofa. Fyrir bragðið erum við oft þurr á manninn, jafnvel viðskotaill.“ Og áfram: „Maður finnur það á sjálfum sér ef svefninn verður ekki nægur eða óregla kemst á hann …“!

Íslendingar fara seint að sofa, seinna en ýmsar þjóðir sem við berum okkur saman við. Íslenskir unglingar höfðu t.a.m. algera sérstöðu í samanburði við unglinga 12 annarra þjóða víða um heim, fóru langtum seinna að sofa en jafnaldrar þeirra á virkum dögum og enn seinna um helgar – og háttatími þeirra var skilgreindur sem ófullnægjandi¹). Nýlegar íslenskar rannsóknir benda og til þess að ungmenni hér á landi fái hættulega lítinn svefn (<6 klst.). Röng staðarklukka sem Íslendingar búa við, sem óhjákvæmilega veldur seinkun sólarupprásar, er mögulegur skýringarþáttur. Dagsbirtan er nefnilega mikilvægasta merkið úr umhverfinu, sem dægurklukka innra með okkur (líkamsklukkan) notar til að ganga í takt við sólarhringinn. Dægurklukkan ákvarðar m.a. þann tíma þegar bestu aðstæður eru í líkamanum til að sofa.

Stjarneðlisfræðingurinn fullyrðir margt í greininni sem ekki á við rök að styðjast. Það er t.a.m. fráleitt að veiting Nóbelsverðlaunanna 2017 hafi verið spyrt við umræðuna um vitlausa klukku að undirlagi talsmanna leiðréttingar hennar. Verðlaunin vöktu hins vegar almenna athygli og í kjölfarið urðu upplýsingar um dægurklukkuna aðgengilegri. Þekkingu á henni hefur fleygt fram og nú vita menn t.d. að seinkuð dagsbirta, eins og gerist við of fljóta klukku, seinkar dægurklukkunni.

Stjarneðlisfræðingurinn kvartar yfir því að honum hafi ekki tekist að finna niðurstöður rannsókna á áhrifum klukkustillingar á líkamlega og andlega heilsu. Geti Gunnlaugur ekki notað leitarvélar veraldarvefsins í slíkt verk ætti að vera auðvelt að benda honum á efnið, sé áhugi fyrir hendi.

Loks dregur stjarneðlisfræðingurinn trompið fram úr erminni, fyrirhugaðar klukkubreytingar innan Evrópubandalagsins og að heyrst hafi að löndin muni flest festa klukkuna á sumartíma. Það má vera fótur fyrir þessu, þó enn hafi engin ákvörðun verið tekin. Áróður fyrir mikilvægi síðdegisbirtunnar á líðan fólks nær auðveldlega til almennings, þegar í hillingum er sól og hiti við allsnægtir grillborðsins og golfvöllur í túnfætinum. En strax sl. haust gáfu þrjú alþjóðleg fræðafélög um svefn og dægursveiflur út sameiginlega yfirlýsingu, þar sem því er fagnað að stöðva skuli klukkubreytingar tvisvar á ári en jafnframt sterklega varað við því að festa klukkuna á sumartíma²). Þar er lögð áhersla á, að vísindalegar sannanir bendi til þess að réttur staðartími (vetrartími) sé betri kostur fyrir lýðheilsu en flýtt klukka (sumartími). Ennfremur segir þar, að svokölluð klukkuþreyta (e. social jetlag), sem fylgir seinkaðri dægurklukku, sé að jafnaði minni hjá þeim sem búa við réttan staðartíma og líkamleg og andleg heilsa betri samanborið við þá sem búa við flýtta klukku.

Það er raunar merkilegt hvað ýmsum raunvísindamönnum er í mun að halda í vitlausa staðarklukku. Það voru einmitt stjörnufræðingur og eðlisfræðingur sem einir vísindamanna höfðu aðkomu að lögleiðingu sumartíma allt árið á Íslandi (1968) – enginn lífvísindamaður. Á þeim fimm áratugum sem liðnir eru hefur þekkingu á áhrifum ljóss á dægurklukku fleygt hratt fram. Mín skoðun er sú að stjörnufræðingar ættu að eftirláta sérfræðingum á sviði dægurklukku og svefns að skýra áhrif vitlausrar klukku á svefn mannsins. Þetta eru nefnilega engin geimvísindi!

 

1) Gradisar et al.: Recent worldwide sleep patterns and problems during adolescence: A review and meta-analysis of age, region and sleep. Sleep Medicine (2011).

2) European Biological Rhythms Society (EBRS), European Sleep Research Society (ESRS), Society for Research on Biological Rhythms (SRBR) https://www.ebrs-online.org/news/item/dst-statement-ebrs-endorsed.