Vinsældir Katrínar Jakobsdóttur virðast nú dvína hratt. Persónuvinsældir hennar hafa mælst margfaldar á við þann stuðning sem flokkur hennar hefur fengið. Fyrir fjórum árum var stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokki réttlætt með því að öðru vísi hafi ekki verið hægt að koma saman meirihlutastjórn. Sú skýring er ekki lengur gild vegna þess að nú voru betri kostir í boði. Margir telja það þynna stjórnmálin út í óskiljanlega moðsuðu að höfuðandstæðingar íslenskra stjórnmála vinni saman í ríkisstjórn.

Innan flokks Katrínar er gagnrýnin hörð, meðal annars í nýútkominni bók frá Ögmundi Jónassyni. Illugi Jökulsson rithöfundur og harður vinstrimaður gerir í nýlegri grein stólpagrín að málflutningi Katrínar sem honum finnst vera frasakenndur og innantómur. Fólk skynjar að hana skortir stefnu og hugsjónir. Leggur allt í sölurnar til að halda embætti sínu. Fórnaði umhverfis- og loftslagsmálum, sem hafa verið hjartans mál VG. Heilbrigðisráðuneytið var hrifsað af VG eftir umdeildan ráðherraferil Svandísar Svavarsdóttur.

Úrslit kosninganna í haust kölluðu ekki á vinstri stjórn. Vinstri græn töpuðu miklu fylgi og misstu þrjú þingsæti. Sósíalistaflokkurinn náði ekki á þing og Samfylkingin tapaði. Þetta var ekki ákall um vinstri stjórn. Miðjuflokkurinn Framsókn bætti við sig fimm þingsætum, Viðreisn einu og Flokkur fólksins tveimur. Ákall kjósenda var því á miðjustjórn en ekki vinstristjórn.

Fylgi Vinstri grænna er nú 12 prósent, sama og 2013 þegar óvinsæl vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur féll í kosningum, en sú ríkisstjórn er almennt talin versta ríkisstjórn sögunnar, ásamt vinstri stjórn Gunnars Thoroddsen 1980-1983.

Stenst Katrín mótbyrinn eða hverfur hún af vettvangi stjórnmálanna fyrr en seinna eins og stundum hefur verið spáð?