Stigagangurinn vaknar klukkutíma fyrr en ég flesta morgna, suma morgna neyðir hann mig á fætur með sér. Við Hófí, kærastan mín, erum barnlaus og vinnum heima hjá okkur bróðurpart vikunnar. Hún í ritstjórnarverkefnum og pistlaskrifum. Ég í einhverju sem ég get yfirleitt ekki tilgreint í lok dags, en ég er viss um að skapi verðmæti.

Í stigaganginum eru fimm íbúðir, fimm einingar, við Hófí og fjórar aðrar. Eftir tæpt ár í þessari íbúð átta ég mig ekki á því hversu stórar þessar einingar eru, en ég hef það fyrir satt að það búi minnst eitt barn hérna.

Suma morgna vakna ég við vekjaraklukku á efri hæðinni, eða nágranna að eiga erfiðan morgun sem hleypur upp og niður tröppurnar. Eða barnið eða börnin að kalla á foreldra sína að utan, hafandi gleymt nesti, húfu eða faðmlagi.

Suma morgna vaknar stigagangurinn í samhæfðu dansatriði. Þá heyri ég sturtað niður í fjórum klósettum í sömu andrá, skrúfað frá fjórum sturtum og loks er fjórum hurðum skellt og nágrannar mínir þramma samtaka niður tröppurnar.

Suma morgna streitist ég á móti og þykist ætla að vakna við vekjaraklukkuna. „Ég er herra minna örlaga,“ hrópa ég þá upp og Hófí biður mig að hætta þessu, hún er að reyna að sofa. Aðra morgna læt ég undan taktinum í stigaganginum, helli mér upp á kaffi og læt renna í bað. Ef ég er heppinn er morgunrútína nágranna minna skammt á veg komin og ég næ að hlera hana. Hlusta á fráganginn eftir morgunverð, á fólk að leita að húfunni, á örvæntingarfulla bankið þegar einhver gleymdi lyklunum sínum. Hlusta á samhæft ferðalag nágranna minna út í daginn. Þá morgna finn ég að ég er hluti af samfélagi.