Merki um að ferðaþjónustan sé að ná vopnum sínum á ný sjást víða þessa dagana. Play hóf sig loks til flugs í gær og þá stendur einnig yfir almennt hlutafjárútboð hjá félaginu, þar sem fjárhagsstaðan verður styrkt enn frekar með því að sækja á fimmta milljarð króna, og í kjölfarið skráning í Kauphöllina. Þá hefur á sama tíma verið tilkynnt um að erlendi fjárfestingarsjóðurinn Bain Capital muni kaupa nýja hluti í Icelandair fyrir um átta milljarða króna sem gerir hann að langsamlega stærsta hluthafanum með nærri 17 prósenta eignarhlut. Fjárfesting Bain Capital, sem kemur til vegna bágborinnar lausafjárstöðu Icelandair og ætti að forða félaginu frá því að þurfa að draga á lánalínur með ríkisábyrgð, sýnir að sjóðurinn hefur trú á framtíð íslenskrar ferðaþjónustu.

Spár stjórnvalda og greinenda um fjölda ferðamanna á þessu ári hafa gert ráð fyrir að þeir verði á bilinu 600 til 800 þúsund. Fyrir aðeins örfáum mánuðum síðan hefðu fáir þorað að veðja á að þær spár ættu eftir að rætast. Nú hefur stíflan hins vegar brostið, fyrst með hröðum vexti í bókunum frá Bandaríkjunum þegar fallið var frá sóttkvíarskyldu fyrir bólusetta ferðamenn utan Schengen, og á allra síðustu vikum eru ferðaþjónustufyrirtæki einnig farin að merkja stóraukna eftirspurn frá Evrópu. Vikulegum brottförum flugfélaga frá Keflavíkurflugvelli fjölgar hröðum skrefum og eru nú líklega orðnar yfir 200 talsins. Góður gangur í bólusetningum skiptir hér mestu máli og allt útlit er fyrir að spár um fjölda ferðamanna í ár muni ganga eftir – og jafnvel gott betur en það.

Milljón ferðamenn í dag hafa talsvert meiri efnahagslega þýðingu en áður þar sem þeir, einkum Bandaríkjamenn, dvelja núna lengur á landinu og eyða hærri fjárhæðum en venjan er í afþreyingu og aðra þjónustu.

Tilslakanir á landamærunum ráða miklu um hversu hröð aukningin verður á komandi mánuðum. Stjórnvöld hafa gefið til kynna að til standi í næsta mánuði að hætta með sóttkví við komuna til landsins og þess í stað verði einföld skimun fyrir alla. Engin ástæða er til að ætla annað en að þau áform muni standast. Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar sagði í samtali við Markaðinn í vikunni að ef sóttkvíarskyldan verður afnumin fljótlega eigi hún von á að ferðamannafjöldinn verði töluvert meiri en spárnar geri ráð fyrir og geti jafnvel með sama framhaldi nálgast eina milljón. Það gæti breytt miklu um hversu kröftug viðspyrnan verður en ferðaþjónustan var stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugreinin áður en faraldurinn skall á. Þá er margt sem bendir til þess að milljón ferðamenn í dag muni hafa talsvert meiri efnahagslega þýðingu en áður þar sem þeir, einkum Bandaríkjamenn, dvelja núna lengur á landinu og eyða hærri fjárhæðum en venjan er í afþreyingu og aðra þjónustu.

Atvinnuleysið, sem mælist enn rúmlega níu prósent, mun ekki taka að minnka að neinu ráði fyrr en ferðaþjónustan kemst í eðlilegt horf. Það er því fagnaðarefni að atvinnugreinin sé að komast af stað, sem ætti að skapa þúsundir nýrra starfa, og því skýtur það skökku við þegar forystufólk verkalýðshreyfingarinnar reynir á sama tíma að leggja stein í götu sumra ferðaþjónustufyrirtækja sem eru að leggja sitt af mörkum í endurreisninni. Vonandi munu þær tilraunir ekki bera árangur.