Árið 1869 kom úr bókin Kúgun kvenna eftir breska heimspekinginn John Stuart Mill. Í bókinni sagði Mill stöðu kvenna undir valdi og hefðum karlmanna og að sú staða væri hvorki náttúruleg né eðlislæg. Mill líkti valdi karlmanna yfir konum við það vald sem þrælahaldari hafði yfir þræl sínum.

Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði við Háskóla Íslands, segir að marxískur og sósíalískur femínismi hafi fléttað saman stéttakúgun og kvennakúgun. Að kvennakúgun sé afleiðing stéttakúgunar. Færi það svo að stéttakúgun yrði útrýmt myndu konur öðlast meiri völd.

Undanfarnar vikur höfum við lesið og hlustað á fréttir um verkföll, stéttarfélög, skúringakonur, Sólveigu Önnu og launakjör. Annað hvort stendur fólk með Sólveigu Önnu eða er á móti henni. Annað hvort stendur þú með skúringakonum eða ekki. Allt þarf að vera svart eða hvítt og andstæðurnar algjörar.

Í slíku umhverfi er erfitt að taka upplýstar ákvarðanir og mynda sér raunverulegar skoðanir. Það er ekkert svigrúm til að skoða hlutina út frá öllum hliðum og finna lausn.

En við vitum alveg að það er ekki gott að í samfélaginu okkar sé fólk sem vinnur og vinnur og fær fyrir það laun sem duga ekki fyrir nauðsynjum. Við vitum líka að það er gott að í samfélagi okkar séu til manneskjur, eins og Sólveig Anna, sem eru til í að berjast fyrir annað fólk og kjörum þess. Eða það er allavega gott fyrir suma.

Það er ekki þægilegt að hugsa til þess að hér búi fólk sem á ekki peninga fyrir mat. Það er miklu þægilegra að sitja bara í sínum vellystingum og hundsa vandamálið. Ef þú situr á veitingastað að borða blómkálssteik og sötra Pinot Noir er ekkert sérlega þægilegt að vera að velta fyrir sér hvernig einhver manneskja reddaði mat fyrir börnin sín í kvöld. En við hljótum þó að þurfa að gera það.

Síðustu vikur hefur fjöldi fólks, og þá sérstaklega karlar, ekki átt í neinum vandræðum með að grípa fram fyrir hendurnar á konunni sem lætur sig skúringakonurnar varða, selja samfélaginu þá hugmynd að hún hafi ekki stuðning félagsmanna sinna og sé að búa til úlfalda úr mýflugu.

Getur skýringin verið sú að ef við förum að hugsa of mikið um þau sem neðst eru í samfélaginu og auka réttindi þeirra þá minnka réttindi annarra? Minni stéttakúgun=meiri völd til kvenna. Meiri völd til kvenna=minni völd til karla. Nei, ég bara spyr …