Fyrsti desember er mikilvægur dagur fyrir Evrópusambandið. Ursula von der Leyen varð þá fyrsta konan til að gegna embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Hún hefur heitið því að fimm ára stjórnartíð hennar muni einkennast af djörfung og umbótum. Hún hefur lagt áherslu á að Evrópa snúist ekki um reglur og reglugerðir, heldur um samstöðu fólks, í þágu frelsis og sameiginlegra gilda sem miða að betri framtíð.

Óstöðugleiki einkennir samtíma okkar. Of mörg voldug ríki tala í nafni átaka og einangrunar. En um leið er þetta heimur þar sem milljónir manna fara í mótmælagöngur gegn spillingu og krefjast aukins lýðræðis. Heimurinn okkar þarfnast evrópskrar forystu meira en nokkru sinni fyrr: Evrópusambandið verður að halda áfram að styrkja sig sem ábyrgt áhrifaafl í þágu friðar, jákvæðra breytinga og vera í forystu um samstarf allra þjóða.

Loftlagsaðgerðir

Ef nefna þyrfti eitthvert eitt svið, þar sem heimurinn þarf á leiðandi forystu Evrópusambandsins að halda, þá væru það loftlagsmálin. Loftslagsbreytingar varða tilvist Evrópu – sem og plánetunnar allrar. Við megum engan tíma missa: því hraðar sem Evrópa vinnur í þessum málum því meiri verður ávinningurinn fyrir borgara og samkeppnishæfni Evrópu sem og velferð heimsins alls.

Ursula von der Leyen hyggst leggja fram evrópska „Grænáætlun“ um umhverfismál (e. Green Deal). Grænáætlunin mun breyta reglum um iðnaðarframleiðslu til að hjálpa stórum sem smáum fyrirtækjum á sviði nýsköpunar og stuðla að þróun á umhverfisvænum lausnum, samhliða aukinni sókn inn á nýja markaði. Þetta framtak mun hafa áhrif á Íslandi, sem hefur skuldbundið sig til að uppfylla skilyrði Parísarsamkomulagsins ásamt ESB.

Tækifæri fyrir Ísland

Að líkindum mun þetta einnig skapa mikil tækifæri fyrir Ísland, sem stendur þegar framarlega í nýsköpun – sérstaklega hvað varðar grænar lausnir í orkumálum. Ísland mun geta lagt sitt af mörkum í umskiptunum í átt að loftslagshlutleysi, sérstaklega í ljósi stóraukinna styrkveitinga í gegnum Horizon rannsóknaráætlunina sem íslenskir frumkvöðlar hafa nýtt sér svo vel. Heilbrigði hafsins og framtíð norðurslóða munu einnig skipa stóran sess í dagskrá nýju framkvæmdastjórnarinnar.

Þá mun hin nýja framkvæmdastjórn grípa öll tækifæri og takast á við allar þær áskoranir sem fylgja örri stafrænni þróun samfélaga okkar. Þar er enn eitt sviðið þar sem Ísland getur notið síaukins orðspors síns sem nýsköpunarsamfélag, heppilega staðsett svo nærri Evrópusambandinu.

Frekari þróun EES

Stofnun innri markaðarins er eitt helsta afrek Evrópusamrunans. Þetta er afrek sem Ísland hefur notið góðs af sem aðili að Evrópska efnahagssvæðinu síðastliðin 25 ár. Við búumst við enn meiri framförum þar á næstu fimm árum. Ísland og ESB munu enn sem fyrr starfa saman innan hins trausta tveggja stoða kerfis þar sem Ísland mun áfram hafa áhrif á mótun EES-reglna.

Með konu í fyrsta sinn í forsæti, mun framkvæmdastjórn von der Leyen vinna að því af fullum krafti að nálgast sama kynjajafnrétti og ríkir á Íslandi. Og við byrjum á toppnum – stefnan er að ná fyrst jöfnu kynjahlutfalli í efstu stöðum framkvæmdastjórnarinnar sjálfrar og því næst meðal millistjórnenda, fyrir lok fimm ára kjörtímabilsins.

Metnaðarfull markmið

Vonandi getum við öll verið sammála um metnaðarfull markmið Ursulu von der Leyen fyrir Evrópu: Heimsálfan okkar mun verða sú fyrsta til að ná kolefnisjöfnuði fyrir 2050. Hún verður leiðandi stafrænt afl og það hagkerfi sem best nær jafnvægi milli markaðsafla og félagslegra áherslna. Þannig höldum við áfram að leiða veginn á alþjóðavísu.