„Öflug mannréttindavakt Vinstri grænna“ er titill greinar eftir Jódísi Skúladóttur, þingkonu Vinstri grænna, sem birtist í Fréttablaðinu þann 13. janúar síðastliðinn. Þar segir Jódís frá því hvernig VG hefur flutt mannréttindamálin úr dómsmálaráðuneytinu og inn í forsætisráðuneytið – og að nú sé unnið að stofnun sjálfstæðrar mannréttindastofnunar.

Þegar þetta er athugað í abstrakt tómarúmi er ekkert út á þetta að setja, og það er sjálfsagt að við fögnum hverju framfaraskrefi sem stigið er. Greinin verður aftur á móti pínu ankannaleg þegar við setjum hana í samhengi við það sem er í rauninni að eiga sér stað á meðan „öflugri mannréttindavakt“ Vinstri grænna á vera að standa yfir – því það er eins og að í mörgum málaflokkum sé þingflokkurinn allur steinsofandi á vaktinni.

Nú er alræmt útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra nefnilega á leiðinni í aðra umræðu. Óhætt er að fullyrða að það sé alls ekki unnið á nokkurs konar mannréttindavakt. Þvert á móti hafa aðilar á borð við Mannréttindaskrifstofu Íslands, Mannréttindastofnun Háskóla Íslands, Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, Íslandsdeild Amnesty International, Kvenréttindafélag Íslands, Landssamtökin Þroskahjálp, UNICEF, Barnaheill og Rauði krossinn á Íslandi skilað inn neikvæðum umsögnum um frumvarpið þar sem varað er við mögulegum mannréttindabrotum í frumvarpinu.

Mjög sennilega myndi sjálfstæð mannréttindastofnun, ef hún væri til staðar, taka svipaða afstöðu til frumvarpsins. Þingmenn yrðu samt sem áður að taka afstöðu til málsins. Þeirri vakt verður ekki útvistað til mannréttindastofnunar. Að rekja og rökræða þær réttmætu áhyggjur sem vakna við möguleg mannréttindabrot, yrði frumvarpið að lögum, er verkefni sem á betur heima inni á Alþingi en hér – en í stuttu máli þá lúta áhyggjurnar flestar að því að frumvarpið snúist að mestu leyti um að svipta fólk réttindum sem það hefur nú.

Þar sem frumvarpið er þetta langt komið, afgreitt úr nefnd og tilbúið til annarrar umræðu, verður ekki hjá því komist að hvetja alla þingmenn til dáða – og sérstaklega þá sem berja sér á brjóst fyrir að standa mannréttindavaktina. Telji þingmenn að frumvarpið samrýmist sinni sýn á mannréttindi er eðlilegt að gera kröfu til þess að þeir standi fyrir því máli sínu og verji afstöðu sína með röksemdum í umræðu á þingi.

Telji þingmenn hins vegar að frumvarpið samrýmist ekki sinni sýn á mannréttindi væntir þingflokkur Pírata þess að njóta stuðnings þeirra við að draga fram ágalla þess – sem og við ákall um að farin sé önnur leið við að breyta útlendingalögum sem byggist á meira samráði og sátt, en fyrst og fremst á meiri virðingu fyrir mannréttindunum sem þjóðkjörnum þingmönnum ber að vakta vel.