Sæll Steingrímur, þann 12. apríl sl. tók Sigmundur Ernir Rúnarsson viðtal við þig í þættinum Mannamál á Hringbraut.

Í viðtalinu er meðal annars haft eftir þér:

„Ætli ég sé ekki stoltastur af því að leggja dag við nótt - og hreinlega allt mitt af mörkum - við að taka þátt í endurreisn landsins sem tókst á endanum með það mildum hætti fyrir samfélagið, verð ég að segja, að vakið hefur athygli stofnana og samtaka erlendis.“ 

Ég verð að segja að það fór um mig við þessi orð þín. Getur verið að þú sért algjörlega blindur á afleiðingar þinna eigin gjörða?

Mig langar því að spyrja þig nokkurra spurninga:

1. Ertu stoltur af því að á „þinni vakt“ og af þínu frumkvæði voru teknar ákvarðanir sem gerðu neytendur, fólk sem fjárfest hafði í húsnæði, hreinlega að „þegnum“ fjármálasatofnanna, algjörlega upp á náð og miskunn þeirra komin?

2. Ertu stoltur af því að á „þinni vakt“ og af þínu frumkvæði, hafi lög- og stjórnarskrárvarin réttindi verið brotin á venjulegu fólki sem tekið hafði fasteignalán og að þau brot standa enn og hafa ekki fengist leiðrétt?

3. Ertu stoltur að því að hafa með aðgerðum þínum valdið því að um 10.000 fjölskyldur hafi misst heimili sín í gin bankana fyrir engar sakir?

4. Ertu stoltur af því að hafa búið svo um hnútana að venjulegt fólk á enga undankomuleið þegar bankamenn brjóta á því? 

5. Ertu stoltur af því að hafa byggt sterka skjaldborg utan um bankana?

6. Ertu stoltur af því að hafa í öllum þínum ákvörðunum tekið hagsmuni fjármálafyrirtækja fram yfir hagsmuni almennings?

7. Ertu stoltur af því að hafa látið neytendur taka á sig harða refsingu fyrir afbrot fjármálafyrirtækjanna?

8. Ertu stoltur af aðgerðum ykkar Jóhönnu sem gerðu ekkert nema að lengja í snörunni, þannig að bankarnir gátu mjólkað fjölskyldur þar til ekki var meira að hafa, áður en þeir „opnuðu hlerann“ og létu fólk falla?

9. Ertu stoltur af því að hafa logið að Alþingi í ræðustól og sagt að engir Icesave samningar væru í gangi tveimur dögum áður en skrifað var undir leynisamning í skjóli nætur?

Upphaf allrar þessarar hörmungarsögu virðist liggja í því að árið 2009 lofaðir þú kröfuhöfum bankanna því að ef gengistryggð lán yrðu dæmd ólögleg, yrðu settir á þau Seðlabankavextir. Ertu stoltur af því?

Hafðir þú virkilega ekki hugmynd um að kröfuhafarnir sem þér var svona annt um, voru ekki upphaflegir kröfuhafar bankanna sem höfðu afskrifað kröfur sínar strax í kjölfar hrunsins.

Þú varst að lofa hrægammasjóðunum þessu og margar heimildir herma að svo hafirðu selt þeim lánasöfnin á minna en 10% af raunvirði. Það þýðir að jafnvel þó lánin hefðu verið vaxtalaus og einvörðungu höfuðstóll þeirra greiddur, hefði ágóði hrægammanna verið 1000% – sem flestum hefði sennilega þótt nóg. Ertu stoltur af því?

Kannski finnst þér harkalega að þér vegið í þessum orðum mínum en ég get lofað þér því að það er ekkert á við það að missa húsnæði sitt og/eða þurfa að berjast varnarlaus við ofurefli vegna aðgerðanna sem þú ert svo stoltur af.

Ef þú trúir mér ekki get ég boðið þér upp á hitta marga sem lent hafa í því sem ekki er hægt að kalla annað en „mulningsvélar bankanna“ vegna aðgerðanna sem þú hreykir þér af.

Sameinumst um Rannsóknarskýrslu heimilanna – fáum úr þessu skorið!

Eitt er þó gott við hversu ánægður þú ert með þetta allt saman, þú hlýtur þá að vera sammála því að gera þurfi óháða rannsóknarskýrslu um aðgerðir stjórnvalda eftir hrun, Rannsóknarskýrslu heimilanna. Ég get ekki séð aðra leið fyrir þig til að hreinsa nafn þitt undan þessum þráláta „orðrómi“ um að ekki hafi verið staðið rétt að málum.

Auk þess hljótum við að vera sammála um að stjórnmálamenn, dómararar, embættismenn stjórnsýslunnar og bankamenn séu ekki hafnir yfri lög og rétt. Það getur ekki verið réttlætanlegt að fólk úr þessum æðstu og fjársterkustu lögum samfélagsins, komist upp með að brjóta á þúsundum og láta svo bara eins og ekkert sé.

Við sem þjóð, verðum að fá úr þessu skorið!

 Meðal þess sem óháð rannsóknarnefnd yrði að skoða væri:  

*Stofnun nýju bankanna og yfirfærsla lánasafna gömlu bankanna til þeirra 

*Afhendingu stórra eignarhluta í bönkunum til þrotabúa föllnu bankanna

*Úrlausnir mála vegna ólöglegra lánaskilmála og framferðis kröfuhafa

*Hversu margar fjölskyldur hafa verið sviptar heimilum sínum frá hruninu

*Hversu margar fjölskyldur voru hraktar út á vonlausan leigumarkað og hver væri staða húsnæðismála núna ef það hefði ekki verið gert

*Greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara sem hefur reynst mörgum illa

*Ólöglegar vörslusviptingar ökutækja einstaklinga

*Skortur á samráði við fulltrúa neytenda og samtaka þeirra

*Hvernig málsmeðferð við nauðungarsölur og aðfarir brjóta í bága við mannréttindi

*Hvernig og hvers vegna gengistryggð lán hafi ekki enn verið leiðrétt í samræmi við neytendarétt

*Úrvinnsla slíkra mála hingað til hefur brotið í bága við stjórnarskrárvarin réttindi neytenda og skuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum

*Hvernig Alþingi og dómstólar hafa verið blekkt af málflytjendum fjármálafyrirtækja


Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna treystum því að eiga núna vísa stuðning forseta Alþingis í gerð þessarar Rannsóknarskýrslu heimilanna.

Það hlýtur að vera okkur öllum til góðs að úr því verði skorið hvort stoltið þitt sé verðskuldað eða grunsemdir okkar hjá Hagsmunasamtökum heimilanna sannar.

Þú talar kannski við Katrínu fyrir okkur því hún virðist ekki vera jafn viss í sinni sök og þú því hún hefur ekki svarað erindi okkar enn frá því 15. janúar.

Það eru 10 ár frá hruni í haust. Þetta þarf að taka fyrir á þessu þingi!

Allar frekari upplýsingar verða fúslega veittar.

Í von um gott samstarf og skýr svör,

Ásthildur Lóa Þórsdóttir
formaður Hagsmunasamtaka heimilanna

Höfundur er kennari og skipar 3. sætið á lista Framsóknarmanna í Reykjavík.