Nýja þriggja flokka ríkisstjórnin ætlar sér að hrinda af stað framfaramálum í þágu lands og þjóðar. Forkólfar hennar hafa spurt sig í aðdraganda samstarfsins hvort bæta megi samfélagið og hvar þá helst. Og svarið er á einn veg; samfélagið er ekki nógu sterkt, styrkjum það.

Því er lagt af stað með ellefu áherslumál, en þar rís einna hæst aukinn jöfnuður og réttlæti, jafnt 25 prósenta launahækkun til verst launuðu stétta landsins og stórauknar kjarabætur til öryrkja og aldraðra í landinu, hvoru tveggja sakir þess að ójöfnuður skapar átök í samfélaginu og dregur úr krafti þess.

Og nýja stjórnin ætlar að gera svo miklu meira. Í loftslags- og umhverfismálum ætlar hún sér að taka forystu í heiminum, hætt verði að nota jarðefni til húshitunar fyrir árið 2030, átta árum fyrr en áður var fyrirhugað – og svo mjög verði dregið úr útblæstri mengandi efna fyrir árið 2045 að náttúran hafi þá betur.

Þá verði veðjað á stafrænar lausnir á öllum sviðum atvinnu- og félagslífs, en stefnt verði að því að þjóðin leiði fjórðu iðnbyltinguna, ella verði hún undir í keppni við aðrar þjóðir í lífsgæðum.

Fimmti liðurinn í stjórnarsáttmálanum varðar stórfellt átak í húsbyggingum um allt land svo stemma megi stigu við hækkandi íbúðaverði, en réttur fólks til þess að geta leigt eða eignast húsnæði á hóflegu verði sé mannréttindamál.Stjórnin ætlar einnig að skipta um kúrs í innflytjendamálum með mannúð að leiðarljósi, en bæta þurfi aðstöðu og kjör nýrra íbúa landsins.

Eins mun stjórnin huga betur að málefnum ungs fólks, færa kosningaaldur í 16 ár, enda hafi yngstu kynslóðirnar meira að segja en áður og eigi að hafa meiri áhrif við landstjórnina.

Og stjórnin nýja vill lögleiða kannabis, en notkun þess sé skárri en áfengisdrykkja og tóbaksreykingar og skipti miklu máli í lækningaskyni.

Loks er það slegið í gadda að engir skattar hækki á kjörtímabilinu, tekið verði fyrir útgjaldahækkun hins opinbera, skuldir ekki auknar þótt ríkið geti tekið lán á neikvæðum vöxtum – og að endingu, hámarkshraði á þjóðbrautum verði ekki lækkaður, því það eigi að treysta fólki.Þetta er ekki stefna nýrrar íslenskrar ríkisstjórnar.

Því miður. Þetta er stefna nýrrar þýskrar stjórnar frjálslyndra, jafnaðarmanna og græningja – fyrir fólkið í landinu.