Stasi-liði stígur fram

Rithöfundurinn Hermann Stefánsson upplýsir í viðtali í menningarkafla blaðsins í dag að hann hafi skrifað upp Klaustursupptökurnar. Það gerði hann sér þó ekki til ánægju heldur vinnur hann sem verktaki í fjarvinnslu hjá Alþingi. Þessir verktakar hafa það hlutverk að skrifa upp ræður sem fluttar eru í þingsal þannig að Hermann ætti að vera ýmsu vanur. Hann rifjar upp að Sigmundur Davíð hafi líkt þeim sem hefði verið settur í þetta hlutverk við hvern annan ritara hjá Stasi. Hermann tekur því ekki illa og segist hafa verið kallaður verri nöfnum. Hann sé þar að auki lítið fyrir skjall. Hér er augljóslega verið að fjalla um líf annarra en Sigmundar Davíðs.

Selurinn Gunnar

Hin meintu selahljóð sem heyrast á upptökunum af Klaustri urðu uppspretta ýmissa misgáfulegra kenninga. Stóll að hreyfast, reiðhjól að bremsa eða eitthvert annað umhverfishljóð að utan. Hermann er hins vegar búinn að leysa gátuna. Ef hlustað sé lengi á upptökurnar megi heyra í ansi mörgum selum. Skýringin sé einfaldlega sú að Gunnar Bragi Sveinsson reki stundum upp raddlausan hlátur sem minnt geti á sel. Það er hæfileiki sem mun án efa nýtast honum í framtíðinni, hvort sem hún verður í pólitík eða ekki. sighvatur@frettabladid.is