Gera má ráð fyrir því að á íslenskum vinnumarkaði séu á bilinu 2.000-2.500 einstaklingar sem stama. Málbjörg – félag um stam gerði nýlega óvísindalega könnun meðal félagsmanna sinna þar sem fram kom að um 30% svarenda sögðust ekki vera opinská um stam við sína vinnuveitendur.

Verandi einstaklingur sem þekkir stam af eigin raun – ásamt því að vera vera móðir ungrar manneskju sem stamar og atvinnurekandi til áratuga þá tel ég þetta óásættanlega staðreynd. Stam er reyndar oftast hundleiðinlegt, en stam er ekkert til að skammast sín fyrir og ef einstaklingur sem stamar er hálfpartinn í felum fyrir vinnuveitanda sínum þá er verk að vinna.

Það er vitað að einstaklingar sem stama eru líklegir til að stama mun meira undir álagi og atvinnuviðtal er dæmi um aðstæður sem eru líklegar til að auka stam til muna. Því er nauðsynlegt að atvinnurekendur átti sig á að líklega er einstaklingur sem stamar ekki alveg að sýna sitt rétta andlit í atvinnuviðtali. Ég hvet hins vegar fólk sem stamar til að vera strax í upphafi opinskátt um sitt stam – það eitt og sér getur dregið töluvert úr spennustigi í viðtalinu sjálfu.

Það að tala opinskátt um eigið stam sýnir hugrekki og styrk og það eru eiginleikar sem byggja upp traust og virðingu. Við eigum að opna okkur gagnvart hugsanlegum vinnuveitanda – sýna einlægni og óttast ekki að viðurkenna að við erum ekki fullkomin frekar en næsti maður. Þannig er líklegt að þessi veikleiki breytist í styrkleika og geri ekkert nema auka líkur á að fá starf eða aukinn starfsframa.

Stam á ekki að skilagreina nokkurn mann og má aldrei koma í veg fyrir að fólk láti drauma sína rætast. Best er fyrir alla – atvinnuveitendur sem og fólk sem stamar – að stam sé uppi á borðinu. Stam „í felum“ skapar óþægilegt andrúmsloft, sem auðvelt er að koma í veg fyrir. Tölum um stam!