Þegar ég byrjaði að vinna sem lögmaður gerðist það stundum að það kom símtal frá lögreglunni að nóttu til. Tilefnið var að þá vantaði verjanda í sakamál. Þótt það hafi sennilega ekki verið mikil tign yfir manni, nývöknuðum með úfið hárið, að reyna að gæta hagsmuna skjólstæðingsins, þá er ferlið í kringum þessi mál merkilegt.

Undirliggjandi er jú að hinn handtekni getur þurft að sæta refsingu, sektum eða fangelsi og bæði stjórnarskráin og lögin eru skýr um að fólki sé ekki refsað nema tryggt sé að viðkomandi hafi getað varist ásökunum, haft verjanda sér við hlið í gegnum allt ferlið og að ákæruvaldinu hafi tekist að sanna sakir fyrir dómara.

Þetta á við um öll mál, réttindin eru þau sömu óháð því hversu alvarleg eða léttvæg brotin eru og hversu líklegt eða ólíklegt sé að viðkomandi hafi framið þau.

Nýr refsivöndur

Upp á síðkastið hefur hins vegar orðið til nýtt form af refsingu í samfélaginu, sem er opinber smánun. Nýtt er reyndar ekki alveg nákvæm lýsing því smánun er ævafornt fyrirbæri sem hefur verið stundað í ýmsum myndum víða um heim en nýtt að því leyti að smánunin fer fram á netinu og samfélagsmiðlum.

Vinnuaðstaða okkar til að beita smánun hefur tekið gríðarlegum framförum. Ímyndum okkur til dæmis hvernig staðan var fyrir 30 árum þegar einhver misfalleg orð voru látin falla um tiltekinn einstakling eða þjóðfélagshóp. Þess sem ætlaði sér að leiða hópefli í smánun gegn viðkomandi beið risavaxið verkefni. Ummælin eða athöfnin voru jú hvergi skráð heldur hurfu þau jafnharðan inn í eilífðina. Ekkert internet, samfélagsmiðlar eða snjallsímar með þrefaldri myndavél til að meitla þetta samstundis í hinn rafræna stein. Bara óljós endursögn sem þurfti að upplýsa hvern og einn um munnlega til að málið öðlaðist einhverja útbreiðslu. Þarna vantaði þennan sameiginlega vettvang, þessa rafrænu kaffistofu þjóðarinnar sem samfélagsmiðlarnir eru í dag. Smánun árið 1990 var bara of mikil vinna til að fólk hefði tök á að standa í henni. Ef notast er við tungutak sóttvarna, sem okkur er mjög tamt um þessar mundir, þá var smitstuðullinn alltof lágur til þess að nokkur útbreiðsla næðist.

Staðan í dag er allt önnur og þökk sé tækninni er smitstuðullinn orðinn eins og á verstu sviðsmyndunum hjá Thor Aspelund. Ferlið við að taka þátt í smánun hefur verið gert þægilegt og viðmótið notendavænt. Nú eru ummælin eða athöfnin römmuð inn jafnóðum og varðveitt um alla eilífð með myndskeiði eða skjáskoti sem er hægt að deila með því að ýta á einn takka og tryggja þannig að færslan fari út um allt, safni like-um og hjörtum og frekari deilingum. Á meðan situr maður bara með kaffibollann við tölvuna.

Vanþóknun og fordæming

Í refsirétti eru refsingar skilgreindar þannig að þær feli í sér vanþóknun eða fordæmingu samfélagsins og séu til þess fallnar að valda þjáningu eða óþægindum gagnvart þeim sem refsingin beinist að. Það er fróðlegt að velta fyrir sér hvernig þetta fer saman við opinbera smánun.

Sá sem verður fyrir henni er allajafna nafngreindur, niðurlægður og honum jafnvel hótað, hann getur misst vinnu eða ákveðna stöðu og virðingu í samfélaginu. Margt bendir til þess að þeir sem verða fyrir slíkri reiðiöldu upplifi einmitt þessi einkenni hefðbundinna refsinga, það er þjáningu og óþægindi. Í viðtölum við þá sem hafa gengið í gegnum svona ferli kemur fram að þeir eigi mjög erfitt með að vinna úr þessari reynslu og sumir gera það jafnvel aldrei að fullu. Áfallið er mikið og varnarleysið algert enda er innbyggt í ferlið ákveðið vægðarleysi og heift, reiðibylgjan kemur yfirleitt hratt upp og af miklum þunga og það eru engin sérstök mörk á því hve langt má ganga, hvaða nöfnum má kalla viðkomandi eða hve oft. Þátttakendur hafa nánast frítt spil um stundarsakir.

Enginn málsvari

Eins vandlega og við pökkum inn ferlinu í sakamálum er ferlið á netinu hrátt og án nokkurs ramma. Sá sem lendir í smánun á ekki rétt á neinni sérstakri málsvörn eða málsvara, honum er ekki skipaður verjandi og hann getur ekki vísað til meginreglna eins og að allur vafi skuli túlkaður sér í hag. Einstaka aðilar geta ráðið sér almannatengil eða ráðgjafa og sett saman vandlega orðaða afsökunarbeiðni til að róa umræðuna en það hafa auðvitað alls ekki allir ráð á eða stöðu til að fá slíkt og í raun fæstir. Margir þeirra sem lenda í svona hafa aldrei þurft að eiga við fjölmiðla eða tjá sig á opinberum vettvangi.

En það má spyrja á móti: Hvað eigum við eiginlega að gera í svona aðstæðum? Eiga þeir sem tala niður til annarra í samfélaginu eða jafnvel brjóta á þeim þeim bara að sleppa með það?

Ég held að það sé alls ekki punkturinn. Auðvitað verður umtal, gagnrýni og viðbrögð alltaf til staðar. En spurningin sem við þurfum að spyrja okkur er held ég þessi – hvernig myndum við vilja að aðrir kæmu fram við okkur ef það værum við sjálf sem lentum í hvirfilbylnum? Myndum við ekki biðja fólk um að anda með nefinu, spara stóru orðin og nota frekar rafrænu inniröddina?