Á næstu tólf mánuðum verða teknar á­kvarðanir sem munu ráða miklu um efna­hags­lega fram­tíð á Ís­landi næstu ár og ára­tugi. Kólnun hag­kerfisins var stað­reynd fyrir heims­far­aldur kóróna­veiru. Við­brögð við heims­far­aldrinum hafa reynst hinu opin­bera mjög kostnaðar­söm og nemur aukning skulda hátt í milljarði króna á hverjum virkum degi. Eftir skyn­sama hag­stjórn undan­farinna ára er ríkis­sjóður vel í stakk búinn að taka á sig auknar byrðar en að lokum kemur að skulda­dögum. Leið vaxtar – að veita at­vinnu­lífinu svig­rúm til að skapa aukin verð­mæti og ný og eftir­sótt störf – er far­sælasta leiðin fram á við. Leið aukinna, opin­berra um­svifa og skatt­lagningar mun hefta vöxt at­vinnu­lífs og tefja endur­reisnina. Með því að slíta fjötrana sem halda aftur af at­vinnu­lífinu með mark­vissum hætti á næstu mánuðum verður hægt að hraða upp­byggingu og skapa ný og eftir­sótt störf og aukin verð­mæti.

Ný sókn at­vinnu­lífs er fram undan. Valið snýr að því hvort við viljum endur­reisa hag­kerfið sem var eða byggja upp fleiri stoðir með því að virkja hug­vitið í meiri mæli. Á­herslur Sam­taka iðnaðarins í þeim efnum eru skýrar en á sama tíma og bæta þarf rekstrar­skil­yrði þeirra at­vinnu­greina sem fyrir eru þarf að byggja upp nýjan iðnað og sækja tæki­færin. Þannig aukast lífs­gæði lands­manna til lengri tíma litið, ekki bara til skemmri tíma.

Ný­lega gáfu Sam­tök iðnaðarins út skýrslu undir yfir­skriftinni „Hlaupum hraðar“ þar sem fjallað er um efna­hags­leg mark­mið til ársins 2025 og fjöl­margar leiðir til að ná þeim mark­miðum. Í stuttu máli þarf að fjölga störfum í einka­geiranum um 29 þúsund á næstu fjórum árum og auka út­flutning um 300 milljarða til að búa við sömu lífs­gæði og voru áður en heims­far­aldur kóróna­veiru skall á. Þetta er vissu­lega metnaðar­fullt en raun­hæft og má benda á að svipaður fjöldi starfa varð til á árunum 2015-2018.

Slítum fjötrana

Sam­keppnis­hæfni er hug­tak sem segir til um það hvernig skil­yrði til rekstrar eru hér í saman­burði við önnur ríki. Sam­keppnis­hæfni ræðst ekki af einum þætti heldur er hún sam­spil margra ó­líkra þátta. Út­tekt Al­þjóða­bankans frá árinu 2017 stað­festir að þeir fjórir þættir sem helst hafa á­hrif á fram­leiðni og þar með sam­keppnis­hæfni eru menntun, sem snýr að mann­auði fyrir­tækja, efnis­legir inn­viðir, ný­sköpun og starfs­um­hverfi sem lýtur meðal annars að reglu­verki og skatt­heimtu. Þess vegna líta Sam­tök iðnaðarins til þessara fjögurra mála­flokka og um­bóta í þeim til við­bótar við um­hverfis- og orku­mál sem tengjast iðnaðinum ó­rjúfan­legum böndum.

Með sam­hæfingu í þessum mála­flokkum, með rauðum þræði eða sam­eigin­legu yfir­mark­miði næst mun meiri árangur og skil­virkni en með því að móta stefnu í hverjum mála­flokki fyrir sig án til­lits til annarra mála­flokka. Þannig styðja á­herslur í mennta­málum við ný­sköpun og inn­viða­upp­bygging við frekari verð­mæta­sköpun svo dæmi séu tekin. Þetta er gjarnan nefnt at­vinnu­stefna (e. industri­al stra­tegy) og hvetja Sam­tök iðnaðarins til þess að stjórn­völd horfi til slíkrar stefnu.

Sækjum tæki­færin

Fram­farir verða sí­fellt í tækni og nýr iðnaður lítur dagsins ljós. Reglu­verk tekur eðli­lega mið af þeim veru­leika sem ríkir þegar reglurnar voru settar en gerir ekki endi­lega ráð fyrir þróun og nýjum at­vinnu­greinum. Með því að bæta skil­yrði, auka sveigjan­leika reglu­verks,vera vakandi fyrir nýjum tæki­færum og segja frá þeim mögu­leikum sem hér bjóðast hvetja stjórn­völd til at­vinnu­upp­byggingar og er­lendrar fjár­festingar án þess þó að gera upp á milli greina. Stjórn­völd í öðrum ríkjum eru virkir þátt­tak­endur í því að sækja tæki­færin og það þurfa ís­lensk stjórn­völd einnig að gera. Þetta gerðu stjórn­völd á sjöunda ára­tug síðustu aldar þegar tæki­færi þess tíma voru sótt. Nú þarf að sækja tæki­færi okkar tíma sem liggja í ný­sköpun, hug­verka­iðnaði og í öðrum iðnaði sem tengist hröðum tækni­fram­förum og lofts­lags­málum. Þetta er stærsta efna­hags­málið.