Nokkur kosningaskjálfti er kominn í stjórnmálaflokkana meðan pólitísks óróleika verður ekki vart hjá þjóðinni. Hún telur sig sjálfsagt hafa nægan tíma til að koma sér í pólitíska gírinn og gera upp hug sinn, enda kosningar ekki fyrr en í haust. Ljóst er að þjóðin umber þessa ríkisstjórn betur en síðustu stjórnir og mögulegt er að hún sitji eitt kjörtímabil í viðbót. Það er ekki sérlega ógnvekjandi tilhugsun. Ríkisstjórnin hefur ekki staðið sig áberandi illa þótt samhygð hennar með stórútgerðinni veki ætíð undrun og hljóti að flokkast sem afar hvimleiður galli.

Þjóðin er að stórum hluta þegar búin að gera upp við sig hvern hún vill sem forsætisráðherra. Katrín Jakobsdóttir, núverandi forsætisráðherra, nýtur yfirburða trausts. Hún hefur verið einkar farsæll forsætisráðherra, sterk og ákveðin manneskja, sanngjörn og býr yfir nauðsynlegri samningalipurð. Meira að segja þeir sem andvarpa yfir tilveru Vinstri grænna (og þeir eru ansi margir) viðurkenna flestir að enginn núlifandi stjórnmálamaður er betur til þess fallinn að gegna starfi forsætisráðherra en einmitt Katrín Jakobsdóttir. Haldi núverandi ríkisstjórn áfram veginn eftir næstu kosningar blasir við að Katrín mun verða leiðtogi þeirrar stjórnar. Verði annars konar stjórnarmynstur, en þó með Vinstri græn innanborðs, er nauðsynlegt fyrir þá ríkisstjórnarflokka að velja Katrínu sem forsætisráðherra, enda er hún langöflugasti stjórnmálamaður landsins. Annað val á forsætisráðherra myndi veikja þá stjórn til muna.

Hin sterka staða Katrínar er einkar áhugaverð á tímum þegar traust til stjórnmálamanna er ekki í hæstu hæðum. Það er vissulega meira en það var í hruninu en samt er viðhorf margra enn á þann veg að stjórnmálamönnum sé vart treystandi enda hugi þeir lítt að öðru en að skara eld að eigin köku. Víst er að Katrín Jakobsdóttir er ekki þannig stjórnmálamaður.

Einhverjir pólitískir andstæðingar Katrínar segja að þar sem fjölmiðlafólk hafi á henni sérstakt dálæti sé henni yfirleitt hlíft við erfiðum spurningum. Þetta er vitaskuld fjarstæða. Stjórnmálamenn eru einfaldlega misvel færir um að svara erfiðum spurningum fjölmiðlafólks. Katrín kann það einkar vel.

Sem betur fer hefur sú þróun orðið hér undanfarin ár að fólk er í miklum mæli hætt að binda trúss sitt við ákveðinn flokk. Þetta er ekki eins og áður fyrr þegar það að fylgja stjórnmálaflokki var nánast eins og að tilheyra sértrúarsöfnuði. Nú lítur kjósandi ekki endilega á sinn flokk sem þann eina rétta og sér ekki aðra flokka sem stórkostlega meinsemd í þjóðfélaginu. Í þessari breytingu, sem einhverjum finnst vera lausung, felst umburðarlyndi sem sumir stjórnmálaleiðtogar gætu lært af. Það að þeir skuli fyrir fram útiloka samstarf við ákveðna flokka ber vott um hroka, stífni og jafnvel vott af ofstæki. Víst er að stjórnmálaflokkar sem telja sig hafa höndlað hin eina sanna sannleik eru ekki á góðri leið.