Sumarið 1994 barst mér langlínusímtal á afskekktan sveitabæ á Ítalíu. Hinum megin á línunni var móðir mín sem hafði um hönd bréf frá Krabbameinsfélaginu. Fundist höfðu frumubreytingar á háu stigi og ég hvött til að hafa samband.

Á hverju ári fá um 300 konur sams konar bréf.

Sá sem stendur á verðinum

Kynni mín af Krabbameinsfélaginu eru ekki einungis sem skjólstæðingur heldur vann ég þar í mörg ár við hópleit, rannsóknir og forvarnir. Það vakti athygli mína á sínum tíma hve þangað hafði valist faglegt fólk með fallegt hjartalag og ástríðu fyrir starfi sínu.

Fólkið á bak við Krabbameinsfélagið hefur unnið brautryðjendastarf, beitt yfirvöld þrýstingi og safnaði fé í baráttunni gegn krabbameinum, sem við hin njótum góðs af. Það að dánartíðni af völdum leghálskrabbameins hafi lækkað um 83% síðan leit hófst árið 1964, segir meira en mörg orð.

Mikilvægt er að átta sig á að krabbameinsleit er sjaldnast 100% örugg. Ef skimunarpróf finnur níu af hverjum tíu sem eru með sjúkdóminn sem leitað er að, þá telst slíkt próf gott. Með leghálskrabbameinsleit má finna flesta með sjúkdóminn eða oftar, forstig af honum. Hún mun ekki finna alla.

Í ljósi þess hvað félagið hefur unnið dýrmætt starf í gegnum árin og hjálpað mörgum, þá er áhugavert hversu fáir voru til stuðnings í ásökunarstorminum sem yfir það gekk nýlega. Vissulega eru mistökin alvarleg og afleiðingarnar þungbærar, en eru „krossfesting og jarðarför félagsins“ makleg málagjöld?

Varúlfarnir

Landlæknir sagði í sjónvarpsfréttum að rannsókn á því hvað hefði nákvæmlega farið úrskeiðis væri ólokið og hvatti fólk til að bíða með að mynda sér skoðun.

Alltaf skal þó vera fólk sem myndar sér skoðun undir eins. Fólk sem bíður eins og varúlfar, tilbúið að hakka í sig hjörtu þeirra sem misstíga sig. Ekkert réttlætir mistök í huga varúlfsins.

En mistök verða ekki aftur tekin með því að rífa aðra í sig. Winston Churchill á að hafa sagt að allir menn geri mistök, en einungis hinir vitru læra af þeim. Það sem hér skiptir máli er einmitt að tryggja að sömu mistökin endurtaki sig ekki, ásamt því að hjálpa og styðja við þær konur sem fengu ranga greiningu.

Að skoða allar hliðar

Varúlfarnir eru holdgervingar lastanna hroka og ofsareiði. Með bræði sinni taka þeir sér bessaleyfi til að kveða dóm um hvaða refsing er viðeigandi. Hrokann hafa þeir öðlast á lífstíð sinni en reiðin er þeim eðlislæg. Reiði er nefnilega ein af grunntilfinningum okkar sem kallar fram sömu svipbrigði óháð landamærum. Það er hvernig varúlfarnir beita reiði sinni, sem aðskilur þá frá öðrum.

Sálfræðingurinn Daniel Coleman, segir að þegar reiði heltekur hugann hverfi getan til setja sig í spor annarra og sjá stóra samhengið. Varúlfurinn sér þannig bara sína hlið. Ef hann ætlar að dempa reiðina þá þarf hann að lifa sig inn í hlutverk allra sem í hlut eiga. Það er honum kannski fyrir bestu.

Því þegar reiði brýst út eykst nefnilega hætta á hjartaáfalli og heilablóðfalli lítillega.

Dyggðir Aristótelesar

Varúlfarnir verða víst áfram víða og teymast af löstum sínum. Gríski heimspekingurinn Aristóteles, trúði því að við mennirnir ættum að láta dyggðir lýsa veg sálarinnar. Að æðsta dyggðin væri vitsmunaleg ígrundun, en aðrar góðar dyggðir væru sanngirni, vinsemd og að hafa stjórn á skapi sínu. En það eru einmitt dyggðir góðra manna sem gera samfélagið að stað sem mann langar að kalla „heima.“

Eftir barnfóstruævintýrið á Ítalíu var meinið fjarlægt hratt og örugglega. Krabbameinsfélaginu er ég ævinlega þakklát.