Af hverju er ekki nóg bara að vera? Þessari áleitnu spurningu velti tónlistarmaðurinn Jónas Sig upp í þættinum Okkar á milli á RÚV fyrir helgi, þegar lesskilningur ungra drengja var til umræðu, og sú staðreynd að um þriðjungur íslenskra drengja nær ekki grunnhæfniviðmiðum við skólagöngu.

Minnkandi lesskilningur íslenskra barna hefur lengi verið áhyggjuefni. Jónas lítur málið öðrum augum og telur að of mikið sé gert úr lestrargetu barna. Hlutirnir séu ekki alltaf svartir og hvítir. Hann benti í því samhengi á þörf samfélagsins til að steypa alla í sama mót og að þeim sem standi fyrir utan hið hefðbundna mæti fátt annað en skilningsleysi, séu jafnvel kallaðir gagnslausir. Þá benti hann á að skólakerfið sýndi lesblindum of litla athygli, sem væru mikil mistök.

„Við vitum að lesblinda er í raun bara vangeta til að taka inn línuleg gögn. Þeir sem eru lesblindir eru oft stórkostlegir í að taka inn þrívídd,“ sagði Jónas og nefndi dæmi um að lesblindir ættu jafnan auðvelt með að vinna á vélar og gangverk – á meðan þeir sem betri eru með orð og tölur eigi oft erfitt með það.

Það er vissulega áhyggjuefni þegar börnum fer aftur í skóla en það er líka áhyggjuefni þegar viðmótið er þannig að fólk sé kallað gagnslaust. Þegar illa gengur þarf að huga að því sem betur má fara og sleppa gífuryrðunum. Það er staðreynd að börn lesa minna af bókum en þau lesa hins vegar miklu meira af öllum heimsins fróðleik á netinu. Börn eru miklu upplýstari en áður og sum hver nánast orðin tvítyngd áður en þau hefja skólagöngu. Sú þróun er ekki neikvæð. Það er hins vegar augljóst að skólakerfið hefur ekki fylgt þróun samtímans.

Sem dæmi er hægt að nefna þá miklu áherslu sem lögð er á hraðlestur barna. Lesfimi er raunar það orð sem notað er yfir hraðlestur í skólum og samkvæmt svokölluðum lesfimiviðmiðum Menntamálastofnunar er gert ráð fyrir að 13 ára börn geti lesið allt að 210 orð á mínútu, villulaust og upphátt. Krafa um slíkan hraðlestur ætti að þykja fullkomlega fráleit enda þarf fólk að búa yfir sérstökum hæfileikum til að geta uppfyllt þessi viðmið. Það er mikilvægara að skilja en að klára lesturinn á methraða, og hér virðist skólakerfið aðeins reyna að leggja stein í götu nemenda sinna þegar hlutverk þess á að vera það sem Jónas bendir á: að ýta undir styrkleika þeirra.

„Við höldum að við séum með umburðarlynt kerfi þar sem er pláss fyrir alla. En spurðu eitthvert barn í grunnskóla: Hvað átt þú að verða þegar þú ert orðin/n stór? Og það er rosalega sterk undiralda að þú verðir að verða eitthvað, þú verðir að gera eitthvað. Af hverju er ekki nóg bara að vera? Elskandi einstaklingur í samfélagi og standa með öðrum, hjálpa fólki ef þú getur. Er það ekki æðsta dyggðin?“ sagði Jónas í viðtalinu og undirstrikaði þannig mikilvægi þess að vinna hlutina með mannúðina að leiðarljósi. Sem er nákvæmlega það sem skiptir máli þegar kemur að börnum.

Að því sögðu væri áhugavert að sjá menntamálaráðherra þreyta fyrrnefnt lesfimipróf Menntamálastofnunar.