Þeir eru tvö hundruð og níu talsins. Vinnuhóparnir, fagráðin, þingmannanefndirnar, aðgerðahóparnir, viðbragðsteymin, verkefnastjórnirnar og valnefndirnar sem sinna tímabundnum verkefnum fyrir ríkisstjórnina.

Í þeim situr slíkur fjöldi fulltrúa að mannhafið færi létt með að fylla stúku í væntanlegri þjóðarhöll. Sem er ekki risin. Því hún er í nefnd.

En sem sagt, ríkisstjórnin er með einn starfshóp á hverja sautján hundruð Íslendinga. Sem hlýtur að vera enn eitt höfðatölumetið. Utan um tímabundin verkefni sem virðast ekki lúta neinum lögmálum tímans. Ef mið er tekið af því hversu seint og illa gengur að kreista út úr þeim niðurstöður.

Eflaust er þetta til marks um að ríkisstjórnin láti verkin tala. Tvö hundruð og níu mál í vinnslu áður en mikilvægar ákvarðanir eru teknar. Það kann að vera rétt. Upp að vissu marki.

Önnur skýring er þó líklegri. Það getur verið flókið að komast að sameiginlegri niðurstöðu í ríkisstjórn ólíkra flokka. Þetta þekkir forystufólk í pólitík. Það hefur vissulega sína kosti að æðsta stjórn landsins spanni litrófið, en það hefur líka sína ókosti.

Þegar áherslugjáin er breiðari en svo að brúin nái yfir hana getur verið nauðsynlegt að kaupa sér tíma og skipa nefnd. Helst fram yfir kosningar.

Að vissu leyti er þetta bráðsnjallt því þannig fá allir á tilfinninguna að ríkisstjórnin sé að gera eitthvað. Án þess að hún geri nokkuð. Nema drepa óþægilegum málum á dreif og stofna til kostnaðar. Þvert á kröfu um aðhald í ríkisrekstri á tímum hækkandi verðbólgu.

Það kostar sitt að brúa djúpa gjá. Tala nú ekki um þegar gjárnar skipta hundruðum.

Á dögunum var svo stofnuð harla óvenjuleg nefnd. Sem hristi upp í annars daufum nefnda­kúltúr. Svokallaður spretthópur. Með gamlan kúreka að norðan í fararbroddi. Sá gekk svo vasklega til verks að forseti Alþingis var enn með gleraugun á nefinu þegar sprettgengið hafði skilað af sér og kúrekinn riðið inn í sólarlagið.

Það var hressandi. Aðallega vegna þess að hópurinn stóð undir nafni. Öfugt við alla starfshópana sem starfa ekki, samráðshópana sem funda ekki og aðgerðahópana sem leggja ekki til neinar aðgerðir.

Ríkisstjórnin ætti því að stofna fleiri spretthópa. Sá næsti gæti heitið Spretthópur um fækkun starfshópa.