Á flestum tungu­málum getur hvert orð haft margar merkingar, þá eru einnig til mörg orð sem merkja sama hlutinn. Í ís­lensku er nær­tækasta dæmið lík­lega fjöldi orða sem til eru yfir snjó. Það þótti forðum mikil­vægt að vita ná­kvæm­lega um hvernig snjó var að ræða. Hvort það var mjöll, skari, hjarn eða kafaldi skipti miklu máli þegar fólk ferðaðist á milli bæja eða jafn­vel lands­hluta, gangandi eða á hestum.

Annað eru svo orðin sem hafa ó­líkar og mis­munandi merkingar. Orðið maski hefur verið mikið á milli tannanna á fólki. Bæði hefur orðið táknað grímuna sem við þekkjum öll svo vel en svo er maski einnig eitt­hvað sem við setjum á húðina til að mýkja hana eða hreinsa. Í gær var svo maska­dagur á Ísa­firði og í Bolungar­vík. Annars staðar var bollu­dagur en fyrir vestan táknar það að maska á bollu­dag að klæða sig upp í búning og sníkja nammi, líkt og við hin gerum á ösku­dag.

Á eftir bollu- eða maska­degi kemur svo sprengi­dagur. Fyrir flestum táknar hann það sama. Við borðum salt­kjöt og baunir, eins mikið af því og við getum, alveg þangað til við erum að springa. Hann ber upp á þriðju­degi í sjöundu viku fyrir páska.

Kona sem ég hitti um helgina kveið svo sprengi­degi, fyrir henni snerist hann ekki um að borða salt­kjöt og baunir. Hann táknaði eitt­hvað annað og hann er ekki á morgun. Hann er á föstu­daginn, sprengi­dagurinn 24. febrúar, dagurinn sem Rússar réðust inn í Úkraínu, heima­land hennar. Það er fyrir henni sprengi­dagur.

Síðan inn­rásin hófst er nú að verða liðið heilt ár. Inn­rásin hefur leitt af sér ein­hverja mestu flutninga fólks sem dæmi eru um undan­farna ára­tugi, á skömmum tíma. Milljónir manna hafa flúið heimili sín og hingað til lands höfðu í nóvember á síðasta ári komið 2.000 flótta­menn frá Úkraínu.

Það þýðir fyrir okkur tvö þúsund manns sem við þurfum að út­vega at­vinnu­leyfi, vinnu, hús­næði og helstu nauð­synjar. En fyrir þessar tvö þúsund mann­eskjur þýðir það eitt­hvað allt annað. Þau þurftu að fara frá heimilum sínum, at­vinnu­leyfum, hús­næði, fjöl­skyldu, skóla og vinum. Flýja stríð. Koma sér alla leið hingað. Redda sér öllu og byrja upp á nýtt. Í ó­þekktu landi á ó­þekktum stað.

Tölur eru á reiki um það hversu margir hafa látist í stríðinu í Úkraínu. Tölum ber þó saman um að það eru þúsundir. Lík­legt þykir að yfir sjö þúsund al­mennir borgara séu látnir.