Á flestum tungumálum getur hvert orð haft margar merkingar, þá eru einnig til mörg orð sem merkja sama hlutinn. Í íslensku er nærtækasta dæmið líklega fjöldi orða sem til eru yfir snjó. Það þótti forðum mikilvægt að vita nákvæmlega um hvernig snjó var að ræða. Hvort það var mjöll, skari, hjarn eða kafaldi skipti miklu máli þegar fólk ferðaðist á milli bæja eða jafnvel landshluta, gangandi eða á hestum.
Annað eru svo orðin sem hafa ólíkar og mismunandi merkingar. Orðið maski hefur verið mikið á milli tannanna á fólki. Bæði hefur orðið táknað grímuna sem við þekkjum öll svo vel en svo er maski einnig eitthvað sem við setjum á húðina til að mýkja hana eða hreinsa. Í gær var svo maskadagur á Ísafirði og í Bolungarvík. Annars staðar var bolludagur en fyrir vestan táknar það að maska á bolludag að klæða sig upp í búning og sníkja nammi, líkt og við hin gerum á öskudag.
Á eftir bollu- eða maskadegi kemur svo sprengidagur. Fyrir flestum táknar hann það sama. Við borðum saltkjöt og baunir, eins mikið af því og við getum, alveg þangað til við erum að springa. Hann ber upp á þriðjudegi í sjöundu viku fyrir páska.
Kona sem ég hitti um helgina kveið svo sprengidegi, fyrir henni snerist hann ekki um að borða saltkjöt og baunir. Hann táknaði eitthvað annað og hann er ekki á morgun. Hann er á föstudaginn, sprengidagurinn 24. febrúar, dagurinn sem Rússar réðust inn í Úkraínu, heimaland hennar. Það er fyrir henni sprengidagur.
Síðan innrásin hófst er nú að verða liðið heilt ár. Innrásin hefur leitt af sér einhverja mestu flutninga fólks sem dæmi eru um undanfarna áratugi, á skömmum tíma. Milljónir manna hafa flúið heimili sín og hingað til lands höfðu í nóvember á síðasta ári komið 2.000 flóttamenn frá Úkraínu.
Það þýðir fyrir okkur tvö þúsund manns sem við þurfum að útvega atvinnuleyfi, vinnu, húsnæði og helstu nauðsynjar. En fyrir þessar tvö þúsund manneskjur þýðir það eitthvað allt annað. Þau þurftu að fara frá heimilum sínum, atvinnuleyfum, húsnæði, fjölskyldu, skóla og vinum. Flýja stríð. Koma sér alla leið hingað. Redda sér öllu og byrja upp á nýtt. Í óþekktu landi á óþekktum stað.
Tölur eru á reiki um það hversu margir hafa látist í stríðinu í Úkraínu. Tölum ber þó saman um að það eru þúsundir. Líklegt þykir að yfir sjö þúsund almennir borgara séu látnir.