Það er óheppilegt að fyrsta og eina álitið sem Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna hefur veitt um brot íslenska ríkisins á réttindum einstaklinga skyldi varða grundvöll sjálfs kvótakerfisins. Ráðandi öfl í íslensku samfélagi gátu ekki annað en spyrnt við fótum þegar nefnd úti í heimi krafðist þess árið 2007 að íslenska ríkið endurskoðaði fiskveiðistjórnunarkerfi sitt á grundvelli mannréttindasjónarmiða.

Þáverandi forsætisráðherra lýsti því yfir að álit nefndarinnar væri ekki bindandi og sjávarútvegsráðherrann sagði það órökstutt. Báðir hömpuðu minnihlutaálitinu og sögðu meirihlutann misskilja kvótakerfið.

Hvorki varð neitt af uppstokkun á kvótakerfinu né greiðslu bóta til kærendanna tveggja.

Eftir útreið þessa fyrsta álits hefur nefndin ekki verið til í hugum Íslendinga og engum dottið í hug að eyða tíma sínum og fé í að leita á náðir hennar enda leiðin augljóslega ófær þeim sem vilja fá hlut sinn réttan gagnvart ríkisvaldinu.

Þessi spor hræða nú þegar réttarkerfið og önnur yfirvöld eru farin að senda vægast sagt misvísandi skilaboð til borgaranna um áhrif þess að vísa málum til Mannréttindadómstóls Evrópu. Jafnvel færustu lögmenn landsins fá engan botn í vegferð hins opinbera um endurupptökur sakamála í kjölfar ítrekaðra áfellisdóma frá Strassborg. Hæstiréttur setti sjálfur tóninn í þeirri réttaróvissu í fyrra með því að vísa frá dómi máli manna sem leituðu til Strassborgar eftir að hafa verið refsað tvívegis fyrir sama brot og í fyrradag stóð ákæruvaldið í Hæstarétti og krafðist frávísunar á endurupptöku refsimáls sem dæmt hafði verið af vanhæfum dómara.

Og þótt ríkið hafi viðurkennt brot sitt í málum sex manna sem dæmdir voru án réttlátrar málsmeðferðar í Hæstarétti og náð sáttum við kærendurna í Strassborg, hljóta sigurvegararnir að hugsa sig tvisvar um áður en þeir óska endurupptöku mála sinna fyrir ólíkindatólinu Hæstarétti.

Þá vekur ugg hvernig sumir stjórnmálamenn tala um þessa mikilvægu þrautavaraleið sem reyna má þegar innlendir dómstólar bregðast borgurunum. Líkt og forðum, bregða nokkrir á það ráð að telja minnihlutaálitin skipta meira máli en sjálfa niðurstöðuna og minna á að dómar Mannréttindadómstólsins séu ekki bindandi. Sumir ganga svo langt að ýja að því að heimsvaldastefna dómstólsins sé slík að fullveldi landsins þurfi frekar verndar við en mannréttindi íbúa þess.

Þótt leiðin til Strassborgar sé þung og tímafrek hafa flestir Íslendingar treyst dómstólnum í Strassborg fyrir hlutverki sínu og íslenskum stjórnvöldum til að fullnusta með viðeigandi hætti dóma sem þaðan koma. Það traust er brothætt. Vernd mannréttinda byggir á því að úrræðin til að tryggja þau séu bæði raunhæf og virk. Haldi íslensk yfirvöld áfram að grafa undan trúnaðartrausti landsmanna til Mannréttindadómstóls Evrópu með orðum sínum og gjörðum, hættir fólk að leita þangað þótt það telji á sér brotið. Með tímanum hættir það að trúa því að mannréttindi þess skipti máli og þá hrynur sjálf stjórnskipan landsins, enda getur hún ekki hangið saman á fullveldinu einu og sér.