Nú eru tíu ár síðan Stjórnlagaráð afhenti Alþingi frumvarp að stjórnarskrá Íslands. Frumvarpið dagaði uppi í miklu karpi þingmanna vorið 2013. Tilraun til að breyta nokkrum ákvæðum stjórnarskrárinnar var gerð með frumvarpi sem þáverandi forsætisráðherra lagði fram sumarið 2016. Um það náðist engin samstaða. Núverandi forsætisráðherra hóf embættistíð sína með yfirlýsingu um endurskoðun á stjórnarskránni í áföngum í samráði við almenning. Á lokametrum þingsins í vor náðist ekki samstaða um neitt sem máli skipti í frumvarpinu. Fyrir þessu eru vafalaust margar ástæður. En ein blasir við: Ákvæði um tímamörk frá því að breytingar á stjórnarskrá eru samþykktar og þangað til kosningar þurfa að fara fram.

Og svo dagar það uppi

Búast má við að á næsta kjörtímabili kunni ný ríkisstjórn að hafa áhuga á því að breyta stjórnarskránni, eða jafnvel hverfa aftur til frumvarps Stjórnlagaráðs. Þá má spá eftirfarandi atburðarás: Nefnd flokkanna fjallar um málið fram eftir kjörtímabili. Kannski verður aftur efnt til samráðs við almenning. Á síðasta þingi kjörtímabilsins verður frumvarp lagt fram og um það karpað undir lok þingsins. Á endanum dagar það uppi, kannski vegna málþófs, kannski vegna andstöðu; kannski bara vegna þess að ástandið á Alþingi er yfirspennt rétt fyrir þinglok þegar kosningar eru framundan.

Byrja, ekki enda, á stjórnarskrá

Leiðin til koma í veg fyrir að spádómurinn rætist er þó augljós: Ef breytingaákvæði stjórnarskrárinnar leyfði breytingar í upphafi kjörtímabils frekar en í lok þess væri líklegra að þingið gæti náð lendingu. Þá væri hægt að samþykkja frumvarp sem biði svo nauðsynlegrar afgreiðslu næsta þings án þeirra tímamarka sem nú koma í veg fyrir að þingið geti fjallað um stjórnarskrármál af viti. Og þá breytir engu hvort breytingar væru litlar eða stórar – hvort frumvarp Stjórnlagaráðs frá 2011 væri lagt fram að nýju eða ráðist í breytingar á núgildandi stjórnarskrá.