Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra hefur tilkynnt áform um stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu og rekstur samgönguinnviða.

Innheimta notkunargjalda af notendum mannvirkjana til að endurheimta framkvæmdakostnað er sögð lykilþáttur slíkra verkefna.

Ráðherra segir greiningar benda til þess að best sé að halda utan um slík verkefni í opinberu hlutafélagi sem ríkið eigi að fullu. Þannig fáist skýr umgjörð og utanumhald um þessi verkefni. Einna helst er svo að skilja að eina spurningin sem ósvarað sé snúist um það hvort rétt sé að þetta verði í einu ríkisfélagi eða fleirum.

Hvaða „greiningar“ benda til þess að ríkið sé best til þess fallið að halda utan um uppbyggingu og rekstur samgöngumannvirkja á borð við jarðgöng?

Hefur verið gerð sérstök samanburðarúttekt á þeim samgönguframkvæmdum sem ríkið hefur alfarið haldið utan um annars vegar og einkaframkvæmdum hins vegar?

Hvalfjarðargöngin eru einhver best heppnaða samgöngumannvirkjagerð Íslandssögunnar. Sú framkvæmd var alfarið í höndum einkaaðila. Ríkið kom þar ekki að, utan að vegafé var veitt í vegatengingar að göngunum, sem eðlilegt er, og ríkisábyrgð var veitt fyrir litlum hluta fjármögnunar. Svo var ríkið einn 45 hluthafa í Speli ehf. sem annaðist framkvæmdina.

Er þetta dæmið sem ráðherra horfir til þegar hann segir að best sé að slíkar framkvæmdir séu alfarið í höndum ríkisins?

Hvalfjarðargöngin kostuðu ríkið ekki neitt en eru mikilvægasta samgöngubót Íslandssögunnar, í raun mikilvægari en opnun hringvegarins 1974 vegna þess að göngin færðu Akranes og Borgarnes inn á atvinnusvæði höfuðborgarinnar.

Nær væri fyrir ríkið að ýta undir einkaframkvæmdir í samgöngumálum en að drepa þær í dróma ríkisfjötra sem eru ávísun á brenglaða forgangsröðun, tafir og taumlausa yfirkeyrslu eins og sagan sýnir okkur glögglega.

Tillögur innviðaráðherra hefðu ef til vill átt heima í sósíalískum áætlunarbúskap Sovétríkjanna sálugu en ekki í vestrænu ríki 21. aldarinnar þar sem máli skiptir að kasta ekki peningum út um gluggann.