Skoðun

Heilbrigð sóun?

Áætluð útgjöld ríkissjóðs til heilbrigðismála á þessu ári eru 209 milljarðar króna, um 26% af heildarútgjöldum ríkissjóðs. Fjórða hver króna af útgjöldum ríkissjóðs fer því í þennan mikilvæga málaflokk og það skiptir okkur öll máli hvernig þessum fjármunum er varið.

Í öllum samanburði er íslenskt heilbrigðiskerfi gott, þó svo að margt megi bæta. Þing og þjóð virðast sammála um mikilvægi heilbrigðismála og öflugir talsmenn halda því fram að verja þurfi mun meiri fjármunum í heilbrigðiskerfið. Rökstuðningurinn er til dæmis biðlistar eftir hinum ýmsu aðgerðum og margþættri þjónustu.

Hlutverk og markmið ríkissjóðs þegar kemur að útgjöldum er að fá bestu mögulegu þjónustu á hagkvæmasta verðinu. Þetta á við um öll innkaup ríkisins, hvaða nafni sem þau nefnast. Þeir sem ráðstafa almannafé þurfa að vanda sig og fara vel með.

Þegar svo miklir fjármunir eru í húfi sem hér um ræðir kemur gjarnan upp ágreiningur um stefnur og leiðir. Sumir telja að heilbrigðiskerfið eigi að vera rekið að öllu leyti af hinu opinbera; meðan aðrir telja einkarekstur vera af hinu góða. Fyrir þjóðina skiptir hins vegar mestu máli að fá bestu mögulegu þjónustuna á hagkvæmasta verðinu. Við viljum ekki sóa peningum þegar kemur að útgjöldum. Það á líka við um útgjöld til heilbrigðismála.

Þjóðin eldist og nú færist í aukana að fólk fari í liðskiptaaðgerðir. Skipt er um liði, hnjáliði eða mjaðmarliði til þess að auka lífsgæði fólks. Aðgerðirnar eru meðal annars framkvæmdar á Landspítalanum. Ekki eru framkvæmdar nógu margar aðgerðir til að anna öllum sjúklingum og því er til kunnuglegur biðlisti. Þeir sem eru tilbúnir að greiða úr eigin vasa fyrir aðgerð, geta látið framkvæma liðskiptaaðgerð á hné fyrir um 1,2 milljónir króna hjá einkarekinni heilbrigðisþjónustu. Þeir sem ekki eiga kost á að greiða fyrir aðgerð þurfa að bíða, en þó er sá möguleiki að ef biðin er of löng og sjúklingur líður kvalir er hægt að fá aðgerðina gerða í Svíþjóð. Í þeim tilvikum greiðir ríkissjóður fyrir sjúklinginn, auk kostnaðar við ferðir. Ætla má að kostnaður fyrir ríkissjóð við flýtimeðferð í Svíþjóð sé um tvöfaldur á við aðgerð hér heima.

Það sérstaka við fyrirkomulagið í þessu tilviki er að ríkissjóður er tilbúinn að greiða tvöfalt verð fyrir liðskiptaaðgerð á hné, sem framkvæmd er á einkarekinni stofu í Svíþjóð, heldur en hann er tilbúinn að greiða ef hann léti framkvæma fleiri aðgerðir á Landspítalanum, eða léti einkaaðila á Íslandi framkvæma aðgerðina.

Hér má halda því fram að með því að færa eina aðgerð frá Svíþjóð til Íslands getum við framkvæmt tvær aðgerðir hér, tveir fyrir einn. Á meðan þeir sem stýra heilbrigðismálum fara svona með þá fjármuni sem varið er í málaflokkinn er ekki hægt að halda því fram að það skorti fé. Hér er einfaldlega illa farið með fé.

Hvort sem þingmenn eða stjórnendur heilbrigðismála á Íslandi aðhyllast einkarekstur eða opinberan rekstur, þá hljóta þeir að sammælast um að nýta þá fjármuni sem fara í málaflokkinn á skynsamlegan hátt. Spyrja má hvort víðar sé farið með fjármuni á þennan hátt?

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Fastir pennar

Nekt í banka
Kolbrún Bergþórsdóttir

Fastir pennar

Að vera einn, án annarra
Guðmundur Steingrímsson

Guðmundur Brynjólfsson

Klám
Guðmundur Brynjólfsson

Auglýsing

Nýjast

Drögum úr ójöfnuði
Sonja Ýr Þorbergsdóttir

„Ég er nóg“
Óttar Guðmundsson

Þriggja metra skítaskán
Sif Sigmarsdóttir

Lýst er eftir leiðtoga
Kristín Þorsteinsdóttir

Er um­ræðan um klukku­stillingu á villi­götum?
Gunnlaugur Björnsson

Nóg hvað?
Þórarinn Þórarinsson

Auglýsing