Af fréttaflutningi að heiman fæ ég ekki annað séð en að fólk sé almennt ánægt með framgöngu þríeykisins, svokallaða, þó vissulega finnist skoðanir á öndverðum meiði. Sömu sögu er ekki að segja frá Spáni þar sem einn sóttvarnalæknir stendur með storminn í fangið. Hann heitir Fernando Simón og mega sumir ekki líta hann ógrátandi meðan aðrir sjá glettilegu hliðina á gremju sinni og kalla hann Don Simón.

Er spádómsgáfa hans sögð svo misheppnuð að sagt er að hann hafi spáð fyrir um að Bæjarar næðu ekki að valda neinum usla í vörn Börsunga fyrir leikinn sem Þjóðverjarnir unnu svo átta tvö. Helsta glappaskot hans í starfi var kannski þegar hann dró úr mikilvægi andlitsgríma þegar skortur var á þeim í upphafi, en vildi hann með því koma í veg fyrir uppþot. Eins var hann viðhlæjandi í gríni um föngulega hjúkrunarfræðinga sem var ekki til að bæta vinsældirnar. En þegar kemur að vísindunum er erfiðara að henda reiður á afglöpum hans eða afrekum.

Þegar rýnt er nánar í almenningsálit þetta kemur í ljós að fólk skiptist alveg í tvö horn: vinstrimenn virðast sjá þarna hálfgerðan Messías, meðan hægrimenn sjá hann sem mink í hænsnakofa. Ástæðan er sú að hann var ráðinn til verka af vinstristjórninni.

Svo er alltaf verið að tala um að umræður séu svo hollar, og þetta margfræga samtal sem allir eiga að taka. Jú, eflaust eru þær það þó oft geri þær ekki annað en að sýna manni hversu liðlega heili fólks rennur eftir fyrirfram lögðum flokksteinum.