Ef marka má tölur um nýgreint smit undanfarna daga virðist sem tekist hafi að koma böndum á það sem menn óttuðust að myndi reynast önnur bylgja faraldursins hérlendis. Þróunin í síðustu viku var vissulega ískyggileg en tölur um nýtt smit undanfarna daga gefa tilefni til að vona að tekist hafi að kæfa bylgjuna í fæðingu. Það ber að þakka fumlitlum viðbrögðum sóttvarnayfirvalda.

Þetta er þó háð þeirri óvissu að sóttvarnayfirvöldum hefur ekki tekist að rekja öll tilfellin og óljóst hvernig drjúgur hluti þess smits sem greinst hefur undanfarið fór á milli manna. Það er óþægilegt og gæti bent til að meira smit sé grasserandi í samfélaginu, ýmist ógreint eða smitberarnir einkennalausir.

Staðan hér heima er þó stórum betri en í mörgum löndum í kringum okkur þar sem aftur hefur þurft að grípa til lokana og íþyngjandi takmarkana. Þó að hert hafi verið upp á samkomubanni hér og tveggja metra reglan gerð algild á ný, er það bara reykur af þeim réttum sem aðrar þjóðir hafa mátt gera sér að góðu. Við fengum þó að pústa aðeins yfir hásumarið áður en syrta tók yfir á ný.

Allir ættu að vita að þessi veira er ekkert lamb að leika sér við. Undanfarið hafa fréttir verið fluttar af því að jafnvel þeir sem lítið veikjast geti átt í langvinnum eftirköstum vikum og mánuðum eftir að veikindunum lauk. Í fréttaþættinum 21 á sjónvarpsstöðinni Hringbraut á þriðjudagskvöld var annars vegar talað við Stefán Yngvason, endurhæfingarlækni og lækningaforstjóra Reykjalundar, sem lýsti því hvers lags eftirköst fólk getur þurft að ganga í gegnum. Fram kom að tugir manna hefðu leitað til Reykjalundar vegna þessa. Hins vegar var rætt við Karólínu Helgu Símonardóttur sem sýkst hafði í mars og glímir nú enn við afleiðingar sýkingarinnar, svo sem jafnvægistruflanir, vöðvaverki, þreytu og málstol. Fleiri hafa lýst þessu sama. Fram kom að ekki virðast vera tengsl milli hversu mikið fólk veikist og eftirköst sem eiga þarf við.

Fréttir úr miðborginni um helgina vekja því furðu. Stór hluti þeirra vínveitingastaða sem lögregla heimsótti virti ekki tveggja metra regluna og dæmi voru um að lögregla treysti sér ekki til að fara inn á staðina vegna mannmergðar sem þar var inni fyrir.

Fyrir þetta geta veitingamenn hér á landi ekki verið þekktir. En það er ekki aðeins við þá að sakast. Gestir þeirra bera líka ábyrgð.

Nú má það vel vera að alvarleg veikindi vegna veirunnar séu hlutfallslega fátíð. En þær ráðstafanir sem gera verður þegar upp kemur smit eru mikið inngrip í líf fólks. Fjórtán daga sóttkví, með tilheyrandi takmörkunum á samskiptum fólks og veru frá vinnustað ber ekki að taka af léttúð. Það vita þeir sem reynt hafa. Það er léttvægara en að sýkjast af veirunni og dvelja í einangrun en verulega íþyngjandi engu að síður.

Þess vegna telst það til áhættuhegðunar ef ekki er farið eftir reglum á stöðum þar sem fólk kemur saman, veitingastöðum, vinnustöðum eða verslunum.

Hana þarf að uppræta.